Sviðsljósinu beint að óþekktari þoku Óríon

28. febrúar 2011

  • Messier 43, M43, NGC 1682, þoka De Mairans, Óríon
    Geimþokan Messier 43 í stjörnumerinu Óríon. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa nærmynd af Messier 43, litla bróður Sverðþokunnar í Óríon [1]. Aðeins dökk rykslæða skilur milli Sverðþokunnar (Messier 42) og þessarar þoku sem stundum er nefnd þoka De Mairans, eftir þeim sem uppgötvaði hana. Báðar þokurnar eru hluti af sameindaskýinu í Óríon sem inniheldur nokkrar aðra gasþokur, t.d. Riddaraþokuna (Barnard 33) og Logaþokuna (NGC 2024).

Sameindaskýið í Óríon er í um 1.400 ljósára fjarlægð sem þýðir að hún er nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við jörðina. Þetta svæði hefur þess vegna verið rannsakað gaumgæfilega með Hubblessjónaukanum síðustu tvo áratugi. Hubble hefur fylgst með því hvernig stjörnuvindar móta gasskýin, rannsakað ungar stjörnur og umhverfi þeirra og fundið fjölmörg forvitnileg fyrirbæri eins og brúna dverga.

Á þessari mynd sjást nokkrar heitar ungar stjörnur á svæði sem er tiltölulega lítt rannsakað. Hér fáum við svipmynd af umhverfinu í kringum enn yngri stjörnur sem enn eru huldar ryki.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndum sem teknar voru í gegnum gula síu (litaðar bláar) og nær-innrauða síu (litaðar rauðar) var skeytt saman. Lýsingartíminn var 1000 sekúndur í gegnum hvora síu en myndin þekur 3,3 bogamínútna svæði af himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 43

  • Tegund: Ljómþoka / rafað vetnisský

  • Fjarlægð: 1400 ljósár

Myndir

Ummæli