Gamlar stjörnur í nýju ljósi

14. febrúar 2011

  • Messier 15, M15, kúluþyrping, Pegasus
    Kúluþyrpingin Messier 15 í Pegasusi. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Stjörnurnar í Messier 15 hafa líklega aldrei litið eins vel út miðað við aldur og þær gera á þessari nýju ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Stjörnurnar eru í raun um 13 milljarða ára gamlar og því meðal elstu fyrirbæra alheims. Messier 15 er björt og þétt þrátt fyrir háan aldur ólíkt fyrri mynd vikunnar frá Hubblessjónaukanum sem var af óvenju dreyfðri kúluþyrpingu, Palomar 1.

Messier 15 er kúluþyrping — kúlulaga safn gamalla stjarna sem mynduðust úr sömu gasþokunni við brún Vetrarbrautarinnar, á svæði sem nefnt er hjúpurinn. Hún hringsólar umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar í um 34.000 ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Pegasusi.

Messier 15 er ein þéttasta kúluþyrping sem vitað er um en stærsti hluti massans er í kjarna hennar. Stjarneðlisfræðingar telj að íturvaxnar kúluþyrpingar eins og þessi hafi gengið í gegnum ferli sem nefnist kjarnahrun. Kjarnahrun er afleiðing gagnverkunnar þyngdarkrafta stakra stjarna sem leiðir til þess að þær færast nær kjarnanum.

Messier 15 var einnig fyrsta kúluþyrpingin sem í ljós kom að hýsir hringþoku; reyndar er aðeins vitað um fjórar kúluþyrpingar sem hýsa þær. Hringþokan nefnist Pease 1 og sést greinilega á myndinni sem lítill blár blettur neðarlega til vinstri við kjarnann.

Þessari mynd var skeytt saman úr myndum sem teknar í gegnum appelsínugula og nær-innrauða síu með Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Heildarlýsingartími í gegnum hvora síu var 535 sekúndur og 615 sekúndur. Svæðið sem hér sést þekur 3,4 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 15

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 35000 ljósár

Myndir

Ummæli