Leyndardómar ungrar kúluþyrpingar

24. janúar 2011

  • Palomar 1, kúluþyrping
    Palomar 1 kúluþyrpingin. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Stjarneðlisfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir þessari óvenjulegu en fallegu kúluþyrpingu sem nefnist Palomar 1 og sést hér á mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Þessi daufa og strjála kúluþyrping er af allt öðrum toga en björtu systurþyrpingar hennar eins og til dæmis kúluþyrpingin M13 í Herkúlesi. Palomar fannst ekki fyrr en árið 1954 þegar maður að nafni George Abell kom auga á þyrpinguna á ljósmyndum sem teknar voru með Schmidt-sjónaukanum í stjörnustöðinni á Palomarfjalli.

Kúluþyrpingar eru þéttir hópar stjarna í jaðri Vetrarbrautarinnar, nánar tiltekið í svokölluðum hjúpi hennar. Þær eru meðal elstu fyrirbæra Vetrarbrautarinnar en þar finnast einkum eldgamlar stjörnur og svo til engar gasþokur. Skortur á gasþokum þýðir að þar myndast engar nýjar stjörnur.

Þótt Palomar 1 sé álitin á bilinu 6,3 til 8 milljarða ára gömul telst hún ung í samanburði við aðrar kúluþyrpingar. Palomar 1 er rétt um helmingi yngri en flestar hinna þyrpinganna sem eru í hjúpnum og urðu til við ofsafengin ferli í árdaga Vetrarbrautarinnar. Stjarneðlisfræðingar telja þó að ungar þyrpingar eins og Palomar 1 verði til við mun rólegra ferli, hugsanlega þegar gasþoka varð fyrir utanaðkomandi áreiti sem hratt stjörnumyndun af stað. Samkvæmt annarri tilgátu dró Vetrarbrautin þennan stjörnuhóp að sér. Þá hefur hann svifið um alheiminn en komið of nærri Vetrarbrautinni sem greip hana með þyngdartogi sínu. Einnig er hugsanlegt að þyrpingin hafi myndast með látum og sé leif dvergvetrarbrautar sem Vetrarbrautin okkar gleypti.

Í bakgrunni myndarinnar sjást nokkrar fjarlægar vetrarbrautir og bjartar stjörnur úr okkar eigin Vetrarbraut í forgrunni. Hér er því um að ræða skemmtilega fjölskyldumynd, ef svo má segja.

Myndin er búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndin er tekin í gegnum appelsínugula og nær-innrauðar síur en lýsingartíminn í gegnum hvora síu var um 32 mínútur. Myndin nær yfir 3 bogamínútna breitt svæð á himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Palomar 1

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 37.000 ljósár

Myndir

Ummæli