Stjörnur á flótta

11. apríl 2011

  • IC 1590, Pacman þokan, stjörnuþyrping, lausþyrping, Kassíópeia
    IC 1590 er lausþyrping í stjörnumerkinu Kassíópeiu, oft kennd við tölvuleikjagoðið Pacman. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Stjörnufræðingar hafa notað Hubblessjónauka NASA og ESA til að rannsaka unga stjörnuþyrpingu sem kallast IC 1590 og finna má í stjörnumyndunarsvæðinu NGC 281. Þetta svæði er stundum kallað Pacman þokan vegna þess hve hún er sláandi lík tölvuleikjafígúrunni frægu. Á þessari mynd sést aðeins miðhluti þokunnar, þar sem björtustu stjörnurnar í kjarna þyrpingarinnar er að finna, en dökka svæðið fyrir neðan er hluti af hungruðu gini Pacmans.

Pacman étur reyndar ekki þessar stjörnur. Gasið og rykið í þokunni nýtist þvert á móti sem hráefni í nýjar stjörnur. Stjörnurnar í IC 1590 eru hins vegar á flótta úr þokunni því lausþyrpingar eru aðeins lauslega bundnar saman og munu leysast upp á nokkrum tugum milljónum ára.

IC 1590 er í um tíu þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Kassíópeiu. Í gegnum áhugamannasjónauka sést kjarni þyrpingarinnar, efst á þessari mynd, sem þrístirni en þokan sem umlykur hana er dauf og erfitt að sjá. Bandaríski stjörnufræðingurinn Edward Emerson Barnard uppgötvaðu hana seint á 19. öld með 15 cm sjónauka.

Þessi mynd var búin til með gögnum frá Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula (litaðar bláar), appelsínugula (litaðar grænar) og rauða síu var blandað saman. Rauða sían einangrar ljós frá glóandi vetnisgasi. Heildarlýsingartíminn nam rúmum 35 mínútum og sjónsviðið er um 3,3 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: IC 1590

  • Tegund: Lausþyrping

  • Fjarlægð: 10.000 ljósár

Myndir

Ummæli