Litið í gegnum stækkunargler

18. apríl 2011

  • LCDCS 0829, Vetrarbrautarþyrping, Þyngdarlinsa
    LCDCS-0829 er vetrarbrautarþyrping og þyngdarlinsa.

Hubblessjónauki NASA og ESA er yfirleitt einn um að mynda listaverk alheimsins. Á myndinni hér að ofan hefur hann hins vegar notið aðstoðar frá myndefni þessarar viku, vetrarbrautaþyrpingu sem nefnist LCDCS-0829. Gífurlegur massi vetrarbrautanna virkar eins og stórt stækkunargler. Þessi fyrirbæri nefnast þyngdarlinsur.

Fyrirbærið uppgötvaðist í Las Campanas kortlagningarverkefninu (Las Campanas Distant Cluster Survey) sem skýrir þetta skringilega nafn. Þyrpingin fannst í marsmánuði árið 1995 með eins metra breiðum sjónauka í Las Campanas stjörnustöðinni í Chile. Í þessu ítarlega kortlagningarverkefni fundust yfir þúsund vetrarbrautaþyrpingar á löngu en mjóu svæði á suðurhimninum.

Furðufyrirbærið þyngdarlinsa er ein afleiðing almennu afstæðiskenningar Alberts Einstein. Samkvæmt henni sveigir massamikil vetrarbrautaþyrpingin rúmið og ferðast ljósgeislar frá fjarlægum vetrarbrautum eftir þeirri sveigju. Fjarlæg fyrirbæri birtast ekki aðeins bjartari en þau eru í raun heldur býr þyngdarlinsan til margar eftirmyndir vetrarbrauta og myndar furðulega boga eins og sjá má á myndinni.

Þessi djúpa mynd af þyrpingunni var sett saman úr 36 myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar grænar og myndir teknar í enn lengri bylgjulengdum voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam tæpri 1,5 klukkustund en sjónsviðið er um 2,8 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA

Um fyrirbærið

Myndir

Tengt efni

Ummæli