Öflugar stjörnur í Arnarþokunni

3. janúar 2011

  • Messier 16, NGC 6611, Arnarþokan, Höggormurinn
    Messier 16 eða Arnarþokan í Höggorminum. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Á þessari glæsilegu mynd sem tekin var með Hubblessjónauka NASA og ESA sést hluti Arnarþokunnar frægu. Hér er ung lausþyrping bjartra stjarna sem kallast NGC 6611. Þyrpingin varð til fyrir um 5,5 milljónum ára og er í 6000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í þyrpingunni eru margar heitar, bláar stjörnur, sem gefa frá sér svo sterka útfjólubláa geislun að Arnarþokan lýsist upp. Saman eru þyrpingin og þokan þekkt sem Messier 16.

Stjörnufræðingar kalla svæði eins og Arnarþokuna rafað vetnisský. Hugtakið vísar til þess að á svæðinu er mestmegnis jónað vetni. Í fjarlægri framtíð leysist þetta rafaða vetnisský upp með hjálp höggbylgna frá sprengistjörnum þegar ungu og massamestu stjörnurnar enda ævi sína með hvelli.

Á myndinni sjást líka nokkur dökk ský sem við fyrstu sýn virðast ekki neitt en eru í raun þétt gas- og ryksvæði sem hindra að sýnilegt ljós berist út úr þeim. Líklega eru þetta staðir þar sem fyrstu skref stjörnumyndunar eiga sér stað og eiga stjörnurnar aðeins eftir að brjótast út úr myrkrinu. Skuggaþokur sem þessar, stórar og smáar, eru á víð og dreif um vetrarbrautirnar. Ef þú horfir upp í stjörnubjartan himin frá jörðu niðri, fjarri ljósmengun, sérðu auðveldlega nokkrar stórar skuggaþokur í Vetrarbrautinni okkar sem skyggja á stjörnur í bakgrunni.

Þessi mynd var búin til úr ljósmyndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys í Hubblessjónaukanum. Myndir voru teknar í gegnum tvær nær-innrauðar síur og nam heildarlýsingartími í gegnum hvora síu 2000 sekúndum. Myndin hefur einnig verið lituð með myndum sem teknar voru af jörðu niðri með hefðbundum ljóssíum. Sjónsviðið er um 3,2 bogamínútur að þvermáli.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 6611

  • Tegund: Lausþyrping / geimþoka

  • Fjarlægð: 6000 ljósár

Myndir

Ummæli