Lítil en fullkomin dvergvetrarbraut

25. apríl 2011

  • UGC 9128, dvergvetrarbraut, grenndarhópurinn, hjarðmaðurinn
    UGC 9128 er dvergvetrarbraut og hluti af grenndarhópnum í stjörnumerkinu Hjarðmanninum

Vetrarbrautir koma í öllum stærðum og gerðum þótt flestar séu annað hvort flokkaðar sem þyrilþokur eða sporvölur. Hins vegar falla sumar í fjölbreyttan flokk óreglulegra vetrarbrauta eins og UGC 9128 sem prýðir myndina að ofan en hana tók Hubblessjónauki NASA og ESA.

UGC 9128 er óregluleg dvergvetrarbraut. Það þýðir að hún er ekki aðeins óregluleg að lögun heldur inniheldur hún aðeins um 100.000 stjörnur — miklu færri en stórar þyrilþokur eins og Vetrarbrautin okkar. Dvergvetrarbrautir eru mikilvægir hlekkir í þróunarsögu alheimsins og eru oft á tíðum taldar byggingareiningar stærri vetrarbrauta. Stjörnufræðingar telja nefnilega að stórar vetrarbrautir hafi myndast við samruna lítilla vetrarbrauta.

Síðustu ár hafa stjörnufræðingar reynt að komast að því hvort dvergvetrarbrautir hafi svipaða hjúpa og skífulögun eins og stóru systur þeirra. Í hjúpum vetrarbrauta finnast eldri stjörnur en þær yngri eru í skífunum sjálfum. Athuganir á UGC 9128 benda einmitt til að hún hafi slíkan hjúp og slíka skífu.

UGC 9128 er í um 8 milljóna ljósára fjarlægð og tilheyrir því Grenndarhópnum sem inniheldur 30 nálægar vetrarbrautir. Hana er að finna í stjörnumerkinu Hjarðmanninum. Þótt hún sé tiltölulega nálægt er hún engu að síður mjög dauf og fannst ekki fyrr en á 20. öld. Á myndinni sjást stjörnur greinilega í vetrarbrautinni sem og margar enn fjarlæagri vetrarbrautir í bakgrunni.

Myndin var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegn um gula/appelsínugula síu voru litaðar bláar og myndir teknar í nær-innrauðu voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam rúmum 35 mínútum.

Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: UGC 9128

  • Tegund: Dvergvetrarbraut

  • Fjarlægð: 8 milljón ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli