Æskubrunnur vetrarbrautar

9. maí 2011

  • NGC 5775, Meyjarþyrpingin, Þyrilvetrarbraut
    NGC 5775 er þyrilvetrarbraut í Meyjarþyrpingunni

Þessi mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sýnir NGC 5775, mjóa þyrilvetrarbraut sem við sjáum á rönd. Þótt þyrilarmarnir snúi frá okkur — og vetrarbrautin birtist okkur sem örmjó ræma — getur þetta sjónarhorn engu síður nýst stjarneðlisfræðingum vel því svæðin fyrir ofan og neðan skífuna sjást miklu betur.

Stjarneðlisfræðingar hafa fært sér þennan mikla halla vetrarbrautarinnar í nyt til að rannsaka eiginleika hjúps úr heitu gasi sem greina má þegar röntgengeislun frá vetrarbrautinni er skoðuð. Virknin á bak við slíka hjúpa er óljós en þá má finna umhverfis þyrla sem geyma mjög virk stjörnumyndunarsvæði eins og í NGC 5775. Sumir stjörnufræðingar telja að heitt gas frá skífunni berist upp í hjúpinn með sprengistjörnum en fellur svo aftur niður í skífuna þegar það kólnar — eins og um risastóran gosbrunn sé að ræða.

Enn frekari truflun á sér stað í NGC 5775 því vetrarbrautin er á fyrstu stigum þess að renna saman við aðra vetrarbraut. Vísindamenn hafa tekið eftir straumi vetnisgass milli þessarar vetrarbrautar og nágrannans NGC 5774 sem við sjáum ofan frá, öfugt við NGC 5775. Þrátt fyrir samrunann ber hvorug vetrarbrautanna merki um hala — straum stjarna og gass sem teygir sig langt út í geiminn og má til dæmis sjá á Loftnetunum.

NGC 5775 og 5774 tilheyra báðar Meyjarþyrpingunni og eru í um 85 milljón ljósára fjarlægð. Þessi litmynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir tegnar í gegnum rauða síu voru litaðar bláar o myndir sem einangra glóandi vetni voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími í gegnum hvora síu nam 2.292 sekúndum og 6.848 sekúndum. Myndin þekur 3,2 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 5775

  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

  • Fjarlægð: 85 milljón ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli