Ys og þys í þéttri þyrpingu

23. maí 2011

  • Terzan 5, Bogmaðurinn, Kûluþyrping
    Terzan 5 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Bogmanninum.

Djúpt í Vetrarbrautinni okkar er kúluþyrpingin Terzan 5. Hér sést hún á mynd Hubblessjónauka NASA og ESA í góðri upplausn en stjörnufræðingar hafa einkum haft áhuga á handahófskenndri hreyfingu stjarnanna í henni.

Terzan 5 hefur einstaklega þéttan kjarna og er þess vegna talið að í þyrpingunni séu árekstrar milli stjarna mun tíðari en í öðrum kúluþyrpingum. Önnur afleiðing slíks þéttbýlis er sú að stjörnurnar gerast stundum svo nærgöngular að þær mynda mjög þétt tvístirni.

Athygli vekur að rannsóknir á stökum stjörnum í þyrpingunni benda til að skipta megi þeim í tvo aldurshópa: 6 milljarða ára og 12 milljarða ára. Sumir stjarneðlisfræðingar hafa sett fram þá tilgátu að yngri hópurinn eigi rætur að rekja til dvergvetrarbrautar sem þyrpingin hafi dregið til sín.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir sem teknar voru í gegnum gula/rauða síu (litaðar bláar) hefur verið skeitt saman við myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu (litaðar rauðar). Heildarlýsingartími var um 11 mínútur. Sjónsviðið nær yfir 3,1 x 1,4 bogamínútna svæði á himninum.

Mynd vikunnar kemur frá Hubble/ESA og NASA

Um fyrirbærið

Myndir

Tengt efni

Ummæli