Fullkomin þyrilþoka og sprungin stjarna

30. maí 2011

  • NGC 634, Þyrilvetrarbraut, Sprengistjarna Ia, Þríhyrningurinn
    NGC 634 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Þríhyrningnum.

Hubblessjónauki NASA og ESA er frægur fyrir að taka fallegar myndir og er þessi hér engin undantekning. Á myndinni sjást fjölmörg smáatriði og fullkomnir þyrilarmar vetrarbrautarinnar NGC 643. Þótt ótrúlegt megi virðast er þetta raunveruleg ljósmynd en ekki sýn listamanns eða eitthvað sem rekja má til Stjörnustríðsmyndanna.

Franski stjörnufræðingurinn Édouard Jean-Marie Stephan uppgötvaði þessa þyrilþoku á 19. öld en árið 2008 varð hún viðfangsefni stjarneðlisfræðinga þegar hvítur dvergur endaði ævi sína í stórkostlegri sprengingu. Sprengistjarnan, sem kallaðist SN2008a og var af gerð Ia, varð til skamms tíma bjartari en vetrarbrautin öll. Sprengistjarnan sést reyndar ekki á þessari mynd því hún var tekin um það bil einu og hálfu ári síðar.

Hvítir dvergar eru taldir endastöð í þróun stjarna sem upphaflega eru milli 0,07 til 8 sólmassar. Í Vetrarbrautinni enda 97% stjarna sem hvítir dvergar. Á þessari reglu er hins vegar ein undantekning: Ef hvítur dvergur er hluti af tvístirni getur hann sogið til sín svo mikið efni frá fylgistjörnunni að hann verður of þungur, alveg eins og manneskja sem lifir á óhollu mataræði. Þegar massi hvíta dvergsins er orðinn 1,38 sólmassar verða kjarnahvörf í honum sem verða til þess að stjarnan springur sem sprengistjarna af gerð Ia.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar bláar og skeytt saman við myndir sem teknar voru í gegnum rauða síu (litaðar grænar) og nær-innrauða síu (litaðar rauðar). Heildarlýsingartími nam um 2,7 klukkustundum og sjónsviðið nær yfir um 2,5 x 1,5 bogamínútur á himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 634

  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

  • Fjarlægð: 250 milljón ljósár

  • Stjörnumerki: Þríhyrningurinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli