Forvitnileg myndun aldraðrar stjörnu

13. júní 2011

  • IRAS 22036+5306, Frumhringþoka, Hringþoka,Sefeus
    IRAS 22036+5306 er frumhringþoka í stjörnumerkinu Sefeusi. Hún er í um 6500 ljósára fjarlægð.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið mynd af mjög sjaldgæfu þyrillaga fyrirbæri. Í grennd við bjarta nálæga stjörnu, sem sést efst á myndinni, hefur sjónaukinn greint skammlíft en ofsafengið ferli í ævi stjörnu sem nefnist IRAS 22036+5306.

Í IRAS 22036+5306 er öldruð stjarna sem hefur þeytt frá sér ytri lögum sínum að mestu og myndað ský í geimnum. Undir hulunni leynist þéttur kjarni stjörnunnar, berskjaldaður og hitnar stöðugt. Um stjörnuna miðja er kleinuhringslaga hringur, að hluta til úr efni sem hefur kastast burt og að hluta leifar halastjarna og smástirna. Tveir efnisstrókar skaga út frá pólum stjörnunnar og stinga sér í gegnum efnið í miðjunni. Í strókunum eru efniskekkir sem vega um 10.000 sinnum meira en jörðin og þjóta á um 800.000 km hraða á klukkustund.

IRAS 22036+5306 er að breytast úr frumhringþoku í fullmótaða hringþoku. Í Vetrarbrautinni þekkjast aðeins nokkur hundruð slíkar. Á þessu skeiði endurvarpar skýið ljósi frá stjörnunni. Fljótlega verður stjarnan hins vegar að heitum hvítum dvergi sem jónar gasið í kring með sterkri útfjólublárri geislun svo gasið gefur frá sér alla regnbogans liti. Þá hefur IRAS 22036+5306 breyst í fullmótaða hringþoku og markar það síðasta skeiðið í ævi stjörnunnar sem smám saman kólnar.

Hringþokur endast mun lengur en frumhringþokur, fyrirrennarar þeirra, og eru þess vegna miklu algengari. Hugtakið hringþoka (e. planetary nebula) byggir á gamalli hefð. Fyrstu stjörnufræðingarnir sem komu auga á þær í gegnum sjónauka sínu þótti hringlögun þeirra minna sig mjög á ytri reikistjörnurnar, Úranus og Neptúnus.

IRAS 22036+5306 er í um 6.500 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Sefeusi. Rannsóknir á sjáldséðu fyrirbæri eins og IRAS 22036+5306 gefur stjarneðlisfræðingum tækifæri á að fylgjast með því stutta og torskilda ferli þegar rauðir risar verða að hvítum dvergum. Til dæmis er enn ekki vitað hvernig rykhringurinn og strókarnir myndast. Talið er að hringþokuskeiðið sé örlög flestra meðalstórra stjarna, þar með talið sólarinnar, en hins vegar er óvíst hvort stjarnan okkar endi ævi sína með jafn miklum látum og IRAS 22036+5306 þar sem sú stjarna var að minnsta kosti fjórum sinnum massameiri en sólin.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula/appelsínugula síu, sem litaðar voru bláar, var skeytt saman við myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu og síu sem er næm fyrir rauðglóandi vetni. Heildarlýsingartími var tæpar þrjár klukkustundir. Sjónsviðið er um það bil 22 bogasekúndur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA.

Um fyrirbærið

  • Nafn: IRAS 22036+5306

  • Tegund: Frumhringþoka

  • Stjörnumerki: Sefeus

  • Fjarlægði: 6.500 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli