Þyrill sem snýst í tvær áttir

20. júní 2011

  • NGC 7479, Pegasus, Þyrilvetrarbraut, Caldwell 44
    NGC 7479 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Vængfáknum Pegasusi. Hún er einnig skráð sem Caldwell 44

Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA — sem samsett er úr athugunum á sýnilegum og nær-innrauðum bylgjulengdum — er NGC 7479. Samofnir þyrilarmar þessarar vetrarbrautar mynda öfugt „S“ þar sem þeir snúast rangsælis umhverfis miðbunguna. Þegar þessi vetrarbraut, sem stundum er nefnd Skrúfuvetrarbrautin, er skoðuð á útvarpsbylgjusviðinu snúast orkuríkir strókar í öfuga átt miðað við stjörnur og ryk þyrilarmanna.

Stjörnufræðingar telja að útvarpsstrókurinn í NGC 7470 hafi byrjað að snúast aftur á bak í kjölfar áreksturs við aðra vetrarbraut.

Við árekstur vetrarbrauta verður hrina stjörnumyndunar og hið sama á við um NGC 7479. Í þyrilörmunum og skífunni eru margar bjartar og ungar stjörnur. Þrjár björtustu stjörnurnar á myndinni eru þó í forgrunni og tilheyra Vetrarbrautinni okkar. Þær rötuðu á myndina því þær liggja á milli NGC 7479 og okkar.

Þessi glæsilega vetrarbraut er auðsjáanleg í gegnum áhugamannasjónauka og sýnist þá ílangur loðinn ljósblettur. Þyrilarmarnir eru ögn erfiðari viðureignar en þá má sjá með stærri sjónaukum við mjög góðar aðstæður.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar bláar og myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar gular. Heildarlýsingartíminn nam 520 sekúndum í gegnum hvora síu. Sjónsviðið er 2,7 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 7479

  • Tegund: Þyrilvetrarbraut

  • Stjörnumerki: Pegasus

  • Fjarlægði: 110 milljón ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli