Aragrúi stjarna við hjarta Vetrarbrautarinnar

27. júní 2011

  • Djorgovski 1, kúluþyrping, sporðdrekinn
    Djorgovski 1 er kúluþyrping við miðbungu Vetrarbrautarinnar okkar, í stjörnumerkinu Sporðdrekanum.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur ljósmyndað svæði sem er svo þéttskipað stjörnum að lítið sést í svartan bakgrunn. Þarna er meðal annars kúluþyrpingin Djorgovski 1 sem uppgötvaðist ekki fyrr en árið 1987.

Djorgovski 1 er staðsett mjög nærri miðju Vetrarbrautarinnar, innan miðbungunnar. Ef við líkjum Vetrarbrautinni við borg er miðbungan annasamasta hverfið í hjarta miðborgarinnar. Djorgovski 1 er aðeins örfáar gráður frá miðbungunni og nálægðin við hana skýrir allan þennan fjölda stjarna sem sést á myndinni.

Kúluþyrpingar eins og Djorgovski 1 mynduðust snemma í sögu Vetrarbrautarinnar og geyma því vísbendingar um þróun innri svæða hennar. Hins vegar er erfitt að afla gagna um hana vegna alls þess efnis sem er milli okkar og þyrpingarinnar og það sem verra er, eru stjörnurnar mjög daufar. Jafnvel björtustu stjörnurnar í Djorgovski 1 eru daufari en björtustu risastjörnurnar í bungunni.

Annað vandamál er augljóst: Hvernig vitum við hvaða stjörnur tilheyra Djorgovski 1 og hverjar tilheyra miðbungunni? Til að komast að því hafa stjarneðlisfræðingar rannsakað efnasamsetningu fjölda stjarna á þessu  svæði. Stjörnur með svipaða efnasamsetningu tilheyra mjög líklega sama hópi, líkt og systkini í fjölskyldu. Þessi aðferð hefur reynst vel í því að greina í sundur stjörnur í Djorgovski 1 og miðbungunni.

Þessar rannsóknir leiða einnig í ljós að stjörnur í Djorgovski 1 innihalda vetni og helín en ekki mikið annað. Á tungumáli stjarneðlisfræðinnar eru þær „málmsnauðar“. Meira að segja virðist Djorgovski 1 vera ein af málmsnauðustu kúluþyrpingum innri Vetrarbrautarinnar. Það liggur ekki fyrir hvers vegna svo er en frekari rannsóknir gætu varpað ljósi á það.

Þessi mynd var sett saman úr mörgum myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula/appelsínugula síu voru litaðar bláar og myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam rúmum 11 mínútum og sjónsviðið spannar 2,7 x 1,5 bogamínútu af himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Djorgovski 1

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Stjörnumerki: Sporðdrekinn

  • Fjarlægð: 40.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli