Fótspor Minkowskis

11. júlí 2011

  • IRAS 19343+2926, Minkowski’s Footprint, Minkowski
    IRAS 19343+2926, eða Minkowski 92 er frumhringþoka í stjörnumerkinu

Hubblessjónauki NASA og ESA var notaður til að taka mynd af sjaldgæfri frumhringþoku sem hefur verið kölluð fótspor Minkowskis eða Minkowski 92. Skýin tvö sem skaga út úr sitt hvoru skauti aldraðrar stjörnu eru eins og laukar í laginu og gefa henni því mjög sérkennilega lögun.

Frumhringþokur eins og fótspor Minkowskis eru mjög skammlífar enda marka þær fyrsta skrefið í þróun hringþoka. Þær eru sömuleiðis erfiðar viðfangs því stærstur hluti ljóssins frá þeim er á innrauða sviðinu sem vatnsgufa í lofthjúpi jarðar gleypir. Geimsjónauki eins og Hubble er því einstaklega vel staðsettur til að rannsaka þessi fyrirbæri.

Tæknilega séð er fótspor Minkowskis nú endurskinsþoka því hún sést einungis vegna þess að þokan endurvarpar ljósi frá stjörnunni í miðjunni. Eftir nokkur þúsund ár hitnar stjarnan og útfjólublá geislun frá henni fær gasið til að ljóma. Þá telst hún fullmótuð hringþoka.

Menn skilja ekki enn atburðarrásina sem leiðir til myndunar hringþoku og því er mynd eins og þessi mjög mikilvæg. Hubble hefur þegar unnið þrekvirki í þeim efnum en stefnt er að því að halda því áfram.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Hún var sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum mismunandi litsíur. Ljós frá jónuðu súrefni hefur verið litað blátt; ljós sem barst í gegnum græna/gula síu var litað ljósblátt, ljós frá súrefni í grunnástandi var litað gult og loks var ljós frá jónuðum brennisteini litað rautt. Heildarlýsingartími nam tæpum tveimur klukkustundum og sjónsviðið spannar aðeins 36 bogasekúndur af himninum.

Um fyrirbærið

  • Nafn:IRAS 19343+2926 / Minkowski 92

  • Tegund: Frumhringþoka

  • Stjörnumerki: Kjölurinn

  • Fjarlægð: 8.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli