Sólsetursbjarmi í Óríon

25. júlí 2011

  • NGC 2023, Óríón, Endurskinsþoka
    NGC 2023 er endurskinsþoka í Óríon nærri Logaþokunni og Riddaraþokunni. Hún liggur í um 1500 ljósára fjarlægð.

Endurskinsþokan NGC 2023 er í um 1500 ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Óríon (eða Veiðimanninum), skammt frá Logaþokunni og Riddaraþokunni á himinhvolfinu. NGC 2023 er um 4 ljósár í þvermál og því engin smá smíð. Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sést eingöngu suðurhluti þokunnar þar sem litbrigðin minna um margt á sólsetur á jörðinni.

NGC 2023 umlykur massamikla stjörnu af B-gerð. Það eru stórar, bjartar, bláhvítar og heitar stjörnur, mörgum sinnum heitari en sólin okkar. Orkan sem stjarnan í NGC 2023 gefur frá sér lýsir upp gasþokuna og hitar umhverfið töluvert, sem eru góðar fréttir fyrir stjarneðlisfræðinga sem vilja rannsaka hana. Stjarnan sjálf er rétt fyrir utan sjónsviðið ofarlega til vinstri en bjart ljós hennar dreifist í myndavél Hubbles og myndar blossann sem sjá má á myndinni en er ekki hluti af þokunni.

Stjörnur eru að myndast úr efninu í NGC 2023. Mynd Hubbles sýnir stróðan straum gasbylgna sem eru 5000 sinnum þéttari en miðsgeimsefnið. Sérkennilegu grænu kekkirnir eru taldi Herbig-Haro fyrirbæri. Þau einkenna stjörnumyndunarsvæði og myndast þegar nýmyndaðar stjörnur varpa frá sér gasi á mörg hundruð kílómetra hraða á sekúndu sem síðan rekst á efnið í kring. Höggbylgjurnar örva gasið svo það byrjar að glóa og mynda þau sérkennilegu form sem við sjáum á myndinni. Herbig-Haro fyrirbæri endast að vísu ekki nema í nokkur þúsund ár, augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Þessi mynd var sett saman úr mörgum myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar grænar og myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam tæpum 47 mínútum. Sjónsviðið er um 3,2 bogamínútur af himinhvelfingunni.

Um fyrirbærið

  • Nafn:NGC 2023

  • Tegund: Endurskinsþoka

  • Fjarlægð: 1500 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli