Hubble skoðar óljósa þyrpingu

1. ágúst 2011

  • NGC 6401, kúluþyrping,
    Kúluþyrpingin NGC 6401. Mynd: NASA/ESA og Hubble

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að stjörnum í kúluþyrpingunni NGC 6401. Eitt sinn var þyrpingin lítið annað en grá slykja að sjá í gegnum sjónauka stjörnuáhugamanna en á mynd Hubbles er hún glæsileg.

NGC 6401 er að finna í stjörnumerkinu Naðurvalda. Þyrpingin er mjög dauf svo það krefst talsverðrar reynslu að sjá hana í sjónauka. Kúluþyrpingar eru kúlulaga söfn stjarna og eru oft á tíðum einkar glæsilegar. Þær hringsóla umhverfis kjarna Vetrarbrautarinnar og haldast saman fyrir tilstuðlan þyngdarkraftsins. Talið er að um 160 kúluþyrpingar séu á sporbraut um Vetrarbrautina og er NGC 6401 ein þeirra. Þessi fyrirbæri eru ævagömul en í þeim eru elstu stjörnur sem vitað er um. Mörgum spurningum um þær er enn ósvarað, meðal annars um uppruna þeirra og hlutverk í þróun vetrarbrauta.

Það var stjörnufræðingurinn William Herschel sem uppgötvaði þessa kúluþyrpingu árið 1784 með 47 cm sjónauka en hann taldi sig ranglega hafa fundið bjarta stjörnuþoku. Nokkru síðar gerði sonur hans John Herschel sömu mistök. Það er því augljóst að tækni þeirra tíma gerði stjörnufræðingum ókleift að greina sundur stjörnur í þyrpingunni.

NGC 6401 hefur líka ruglað marga stjörnufræðinga nútímans í ríminu. Árið 1977 var talið að lágmassastjarna í þyrpingunni væri að varpa ystu lögum sínum frá sér og mynda hringþoku. Rannsókn sem gerð var árið 1990 sýndi hins vegar að um tvístirni var að ræða: Tvístirni sem samanstóð af heitri stjörnu sem kallast hvítur dvergur og rauðum risa með tilheyrandi gasþoku. Segja má að uppgötvunin árið 1977 hafi verið gerð nokkur þúsund árum of snemma, því slík kerfi eru talin mynda eina tegund hringþoku.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula/appelsínugula síu voru litaðar bláar og blandað saman við myndir sem teknar voru í gegnum nær-innrauða síu en þær voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími í gegnum hvora síu voru annars vegar 680 sekúndur og hins vegar 580 sekúndur. Sjónsviðið spannar 3,3 x 1,5 bogamínútur af himinhvolfinu.

Um fyrirbærið

  • Nafn:NGC 6401

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Fjarlægð: 35.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli