Þéttur en óvenju vær hópur?

8. ágúst 2011

  • HGC 7, Vetrarbrautarhópur, Hickson Compact Group,
    HGC 7 er vetrarbrautarhópur byggður einni linsulaga vetrarbraut og þremur þyrilvetrarbrautum.

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af vetrarbrautahópnum HCG 7 eða Hickson Compact Group 7. Hópurinn samanstendur af einni linsulaga vetrarbraut og þremur þyrilvetrarbrautum sem allar eru nálægt hver annarri. Á myndinni er ein þyrilvetrarbrautin í forgrunni mest áberandi og fjöldi fjarlægari fyrirbæri í bakgrunni. Rannsóknir á þéttum hópum eins og HCG 7 eru mikilvægar því vetrarbrautirnar í þeim þróast á annan hátt en þær sem eru langt frá nágrönnum sínum á strjálli svæðum í geimnum.

Í nýlegri rannsókn sem unnin var upp úr gögnum frá Hubble voru 300 ungar lausþyrpingar og 150 gamlar kúluþyrpingar kortlagðar, aldur þeirra kannaður og dreifnin sömuleiðis. Niðurstöðurnar benda til að stjörnumyndun hafi verið fremur stöðug í gegnum tíðina og að hún hafi verið mjög mikil við miðsvæði vetrarbrautanna. Frekari rannsóknir, þar á meðal á efninu sem liggur milli vetrarbrautanna bendir til þess að stjörnur í HCG 7 hópnum hafi ekki byrjað að þéttast af völdum þyngdarkraftsins við samruna vetrarbrauta. Það kemur á óvart því vetrarbrautirnar eru að glata gasbirgðum sínum svo hratt að allt bendir til þess að þær hafi runnið saman í fortíðinni.

Þetta vekur upp þá spurningu hvort HCG 7 hafi í raun þróast í ró og næði eða hvort dularfyllri atburðir búi að baki sem við eigum enn eftir að átta okkur á. Upplýsingarnar sem við höfum í dag ber ekki saman og hvetja stjörnufræðinga til að gera frekari rannsóknir svo skilja megi sögu HCG 7 betur.

Þessi mynd var sett saman úr myndum teknum með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, appelsínugula síu grænar og nær-innrauða síu rauðar. Heildarlýsingartími nam rúmri klukkustund (4005 sekúndur) og sjónsviðið spannar 3,3 x 3,0 bogamínútur.

Um fyrirbærið

  • Nafn:HCG 7

  • Tegund:Vetrarbrautarhópur

  • Fjarlægð: 200 milljónir ljósára

Myndir

Tengt efni

Ummæli