Hubble býður upp á fallegt hálsmen

15. ágúst 2011

  • Hálsmenið, PN G054.2-03.4, Örin
    Hálsmenið er hringþoka í stjörnumerkinu örinni

Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA skín gríðarstórt stjarnfræðilegt hálsmen skært.

Þetta fyrirbæri, oft nefnt Hálsmenið, er nýuppgötvuð hringþoka — glóandi leifar venjulegrar stjörnu á borð við sólina okkar. Þokan samanstendur af björtum hring sem er um 2 ljósár í þvermál og kekkjum úr þéttu gasi sem loða við hann og minna um margt á demanta í hálsmeni. Kekkirnir eru bjartir vegna þess að þeir gleypa útfjólublátt ljós frá stjörnunni í miðjunni.

Þokan er einnig þekkt sem PN G054.2-03.4 og myndaðist af völdum tveggja stjarna sem eru mjög nálægt hvor annarri. Fyrir um 10.000 árum þandist eldri stjarnan svo mikið út að hún „gleypti“ förunaut sinn. Smærri stjarnan hélt þó áfram að ferðast á braut sinni innan í útþöndu stjörnunni. Við það jókst snúningshraði útþöndu stjörnunnar svo mikið að stór hluti gasskeljar hennar þeyttist út í geiminn. Mestur hluti gassins losnaði frá miðbaugi stjörnunnar og myndaði hring. Björtu kekkirnir eru þéttir gasklumpar í hringnum.

Stjörnurnar eru svo þétt saman að einungis nokkrar milljónir kílómetra skilja þær að. Þær sýnast þess vegna einn bjartur punktur á myndinni. Stjörnurnar snúast á ógnarhraða umhverfis hvor aðra en umferðartíminn er rétt rúmur dagur. Til samanburðar ferðast innsta reikistjarna okkar sólkerfis, Merkúríus, umhverfis sólina á 88 dögum.

Hálsmenið er í um 15.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu örinni. Myndina tók Hubblessjónaukinn 2. júlí á þessu ári í gegnum síur sem einangra bjarma frá glóandi vetni (litað blátt), súrefni (grænt) og nitri (rautt).

Um fyrirbærið

  • Nafn:Hálsmenið / PN G054.2-03.4

  • Tegund:Hringþoka

  • Fjarlægð: 15.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli