Toguð og teygð vetrarbraut

22. ágúst 2011

  • NGC 2146, hrinuvetrarbraut, gíraffinn, bjálkavetrarbraut
    NGC 2146 er bjálkaþyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Gíraffanum. NGC 2146 liggur í um 70 milljónum ljósára fjarlægð.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur náð mynd af teygðri og togaðri vetrarbraut sem nefnist NGC 2146. Vetrarbrautin hefur afmyndast svo að stór rykugur armur útataður glóandi gasi liggur beint fyrir framan miðju hennar eins og sést á myndinni.

NGC 2146 telst til bjálkaþoka vegna lögunar sinnar en sérkenni hennar er þó án efa rykugi þyrilarmurinn sem hefur hringað sig fyrir framan kjarnann frá okkar sjónarhorni. Mikla krafta þarf til að teygja þessa miklu þoku úr sinni eðlilegu mynd og snúa 45 gráður upp á hana. Líklegasta skýringin er sú að nágrannavetrarbraut trufli þyngdarsvið hennar og komi óreglu á sporbraut stjarna í NGC 2146. Líklegt er að við séum að fylgjast með lokastigum ferlis sem tekið hefur tugi milljóna ára.

NGC 2146 er að ganga í gegnum stjörnumyndunarhrinu en slíkar vetrarbrautir eru nefndar hrinuvetrarbrautir. Það er algengt ástand í bjálkaþokum en önnur þyngdartruflun sem NGC 2146 verður fyrir kemur af stað stjörnumyndun.

NGC 2146 er 80.000 ljósár á breidd og því örlítið minni en Vetrarbrautin okkar. Hún er í um 70 milljón ljósára fjarlægð í Gíraffanum, lítt áberandi stjörnumerki á norðurhveli himins. Vetrarbrautin fannst ekki fyrr en árið 1876 þegar þýski stjörnufræðingurinn Friedrich Winnecke fann hana með aðeins 16 cm sjónauka. Þrátt fyrir að hún hafi fundist seint er tiltölulega auðvelt að koma auga á hana í meðalstórum sjónauka (sést sem teygður þokukenndur ljósblettur).

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar bláar og appelsínugular og settar saman við myndir teknar í gegnum síu sem einangrar ljós frá vetnisgasi en þær voru litaðar rauðar. Auk þess var útbúin græn mynd til að gera litasamsetninguna eðlilegri. Heildarlýsingartími nam 820 sekúndum og sjónsviðið spannar 2,6 x 1,6 bogamínútur.

Um fyrirbærið

  • Nafn:NGC 2146

  • Tegund:Bjálkavetrarbraut

  • Fjarlægð: 70 milljónljósár

  • Stjörnumerki: Gírafinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli