Stjarnfræðilegt sjónpróf

  • potw1135a

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að nálægri en daufri dvergvetrarbraut sem nefnist ESO 540-030. Þokan sýnist risavaxinn stjörnusvermur en er í raun bara eitt áhugavert fyrirbæri af mörgum sem myndina prýða.

ESO 540-030 er í um 11 milljón ljósára fjarlægð og tilheyrir vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við stjörnumerkið Myndhöggvarann en hún er sú þyrping sem liggur næst okkar vetrarbrautahópi. Í Myndhöggvarahópnum eru þessa vegna nokkrar af björtustu vetrarbrautum sem sjást frá suðurhveli jarðar en ESO 540-030 er reyndar ekki ein af þeim. Dvergvetrarbrautir eru nefnilega mjög daufar sem gerir allar athuganir erfiðar.

Á myndininni sjást nokkrar aðrar tegundir vetrarbrauta, þar á meðal þyrilþokur, bjálkaþyrilþokur, sporvölur og óreglulegar þokur. Ef þú grannskoðar myndina ættirðu að geta fundið allar þessar vetrarbrautategundir. Sumar eru reyndar á bakvið ESO 540-030 sem gerir leitina erfiðari. Auk vetrarbrautanna sjást fimm stakar stjörnur sem eru miklu nær og tilheyra raunar vetrarbrautinni okkar. Á stjörnunum sjást fjórir broddar skaga út frá stjörnunum en þeir verða til við ljósbrot í sjóntækjunum.

Skrásetning á tegundum vetrarbrauta er mjög mikilvægt viðfangsefni þeirra stjarnvísindamanna sem reyna að átta sig á þróun alheimsins. Augu okkar eru bestu mögulegu verkfærin til þess eins og þátttakendur í Galaxy Zoo verkefninu geta staðfest.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir teknar í gegnum gula/appelsínugula síu voru litaðar bláar og blandað saman við myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu (litaðar rauðar). Í heild nam lýsingartíminn rúmum tveimur klukkustundum. Sjónsviðið er um 3,1 bogamínútur.

Um fyrirbærið

  • Nafn: ESO 540-030

  • Tegund: Dvergvetrarbraut

  • Fjarlægð: 11 milljón ljósár

  • Stjörnumerki: Myndhöggvarinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli