Krossfiskur í geimnum

5. september 2011

  • IRAS 19024+0044, Örninn, Frumhringþoka, Krossfiskur
    IRAS 19024+0044 er frumhringþoka í stjörnumerkinu Erninum og liggur í um 11.000 ljósára fjarlægð.

Í stjörnumerkinu Erninum er stjarna sem nálgast endalok ævi sinnar og er umlukin krossfiskslaga skýi úr gasi og ryki. Þetta fyrirbæri kallast IRAS 19024+0044 sést hér á mynd sem tekin var með Hubblessjónauka NASA og ESA.

Frumhringþokur veita vísbendingar um hvernig stjörnur svipaðar sólinni okkar enda ævi sína og hvernig þær þróast yfir í hvíta dverga umlukta hringþokum. Þegar stjarna á borð við sólina okkar eldist þeytir hún ytri lögum sínum út í geiminn og myndar fallega og oft flókna geimþoku úr gasi og ryki. Til að byrja með, á meðan stjarnan er enn tiltölulega köld, nær hún ekki að jóna gasið en það lýsir aðeins vegna endurvarps og ljósdeyfingar frá stjörnunni í miðjunni. Aðeins eftir að hitastig stjörnunnar hefur hækkað nógu mikið til að jóna gasið nær hringþoka að verða til.

Frumhringþokur eru tiltölulega sjaldgjæf og skammlíf fyrirbæri sem sjá stjörnufræðingum fyrir vísbendingum um hvernig skrítnar og ósamhverfar hringþokur hafa myndast. Á myndinni hér fyrir ofan sjást fimm bláir separ greinilega sem teygja sig frá miðstjörnunni og gefa þokunni krossfiskslaga lögun. Þó að til séu tilgátur um uppruna þessara sepa, eins og að þá megi rekja til stróka sem hafa breytt um stefnu eða efnisskvettur frá stjörnunni, er myndun þeirra ekki þekkt til hlítar.

IRAS 19024+0044 er blá á litin því gasið og rykið dreifir betur bláa hluti ljóssins frá stjörnunni en rauðu og appelsínugulu hlutum þess. Samskonar áhrif verða þegar sólarljós berst í gegnum lofthjúpi jarðar og er ástæða þess hvers vegna himinninn er blár.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Hún er samsett úr myndum teknum í gegnum gula/appelsínugula síu, sem voru litaðar bláar, og nær-innrauðri síu sem voru litaðar rauðar. Heildarlýsingartími nam 1020 sekúndum en sjónsviðið spannar ekki nema 13 x 13 bogasekúndur af himinhvelfingunni.

Um fyrirbærið

  • Nafn: IRAS 19024+0044

  • Tegund: Frumhringþoka

  • Fjarlægð: 11.000 ljósár

  • Stjörnumerki: Örninn

Myndir

Tengt efni

Ummæli