Skot af þróun alheimsins

10. október 2011

  • Röð Groths, Extended Groth Strip, Stóribjörn
    Röð Groth (e. Extended Groth Strip) er rammi af himninum í stjörnumerkinu Stórabirni. Innan hans eru 50.000 vetrarbrautir.

Vetrarbrautir eru af ýmsum stærðum og gerðum en með tímanum þróast þær og breytast. Sumar, líkt og vetrarbrautin í miðju þessarar myndar frá Hubblessjónaukanum, eru fallegar þyrilvetrarbrautir með tignarlega þyrilarma á meðan aðrar eru sporöskjulaga klessur líkt og stóra fyrirbærið neðar til hægri. Enn aðrar eru fremur óreglulegar að lögun, líkt og appelsínugula vetrarbrautin efst á myndinni sem líkist bylgjulaga striki.

Þessi mynd er ein nokkur hundruð mynda sem teknar voru Advanced Camera for Surveys til að útbúa framlengda röð Groths (e. Extended Groth strip). Röðin, sem nefnd er eftir Edward Groth, stjörnufræðingi við Princeton háskóla, er samsett mynd af kassalaga svæði á himninum í stjörnumerkinu Stórabirni. Svæðið nær fremur lítið svæði af hvelfingunni — um það bil það svæði sem fingurgómur þekur á útréttri hendi — en inniheldur um það bil 50.000 vetrarbrautir.

Myndirnar sem mynda röð Groths gefa stjörnufræðingum kost á að skyggjast inn í sögu alheimsins síðustu átta milljarða ára og sjá vetrarbrautir á mismunandi stigum í þróunarsögu þeirra. Stóru sporöskjulaga og þyrillaga fyrirbærin, sem sjá má í forgrunni myndarinnar, eru fullmótaðar vetrarbrautir. Margar vetrarbrautanna sem prýða bakgrunninn hafa þokukenndari og forvitnilegri lögun og gefa vísbendingu um þann tíma þegar þær voru að breytast.

Myndir eins og þessar hjálpa stjörnufræðingum að skilja hvernig vetrarbrautir breyta stærð og lögun sinni þegar þær þróast, frá fyrstu árunum — sem einkennast af hamförum eins og vöxt svarthola í miðjum þeirra og árekstrum við aðrar vetrarbrautir — til rólegri fullorðinsára.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru á sýnilega og innrauða sviði rafsegulrófsins með Advanced Camera for Surveys

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Framlengd röð Groth

  • Tegund: Vetrarbrautir

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli