Hubble grannskoðar dvergvetrarbraut

24. október 2011

  • Dvergvetrarbrautin í Fönixnum, Fönix, Dvergvetrarbraut
    Dvergvetrarbrautin í Fönixnum liggur í um 1,4 milljóna ljósára fjarlægð

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af Fönix dvergvetrarbrautinni sem er í 1,4 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni í samnefndu stjörnumerki sem sést frá suðurhveli jarðar. Þessi óreglulega dvergvetrarbraut inniheldur ungar stjörnur á innri svæðum sínum en eldri stjörnur nær jaðrinum.

Dvergvetrarbrautir eru smágerðar vetrarbrautir sem samanstanda af nokkrum milljörðum stjarna. Til samanburðar má nefna að fullmótaðar vetrarbrautir geta geymt mörg hundruð milljarða stjarna. Í grenndarhópnum eru þónokkrar dvergvetrarbrautir sem sveima umhverfis stærri vetrarbrautir, líkt og Vetrarbrautina okkar eða Andrómeduvetrarbrautina. Talið er að þær hafi myndast vegna flóðkrafta við myndun stærri vetrarbrauta og/eða vegna árekstra þeirra á milli en við það verða til straumar efnis og hulduefnis út í geiminn. Að minnsta kosti 14 dvergvetrarbrautir eru á braut um Vetrarbrautina okkar.

Sökum lögunar sinnar er óreglulegum dvergvetrarbrautum á tíðum ruglað saman við kúluþyrpingar: Þær hafa hvorki stóra miðbungu né þyrilarma líkt og stærri vetrarbrautir. Hins vegar gegna dvergvetrarbrautir lykilhlutverki í heimsfræði því talið er að efnasamsetning þeirra og gasmagn svipi til fyrstu vetrarbrautanna sem mynduðust í alheiminum. Hins vegar er mikilvægi þessara vetrarbrauta í heimsfræði í beinu samhengi við óspennandi útlit þeirra, þar sem efnasamsetning þeirra og gasmagn eru talin svipa til fyrstu vetrarbrautanna sem mynduðust í alheiminum. Þær eru álitnar samtímaútgáfur af fjarlægustu vetrarbrautum sést hafa í alheiminum og geta þar af leiðandi hjálpað okkur að skilja fyrstu skrefin í myndun stjarna og vetrarbrauta í hinum unga alheimi.

Árið 1976 fundu þeir Hans-Emil Schuster og Richard Martin West vetrarbrautina sem sést á myndinni. Hans-Emil var þá yfirmaður La Silla stjörnustöðvar ESO í Síle og tók þátt í staðarákvörðun og rannsóknum á La Silla og Paranal stjörnustöðvunum. Í síðustu viku viðurkenndi ríkisstjórn Chile lofsvert framlag hans til stjarnvísinda og ESO og veitti honum viðurkenningu Bernard O’Higgins reglunnar.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Dvergvetrarbrautin í Fönixnum

  • Tegund: Dvergvetrarbraut

  • Stjörnumerki: Fönix

  • Fjarlægð: 1,4 milljón ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli