Horft til himins

31. október 2011

  • IRAS 10082-5647, Herbig, For-meginraðar stjarna
    IRAS 10082-5647 er for-meginraðar-stjarna sem lýsir upp umlykjandi nágreni úr gasi og ryki.

Á þessari fallegu mynd Hubblessjónaukans umlykja perlulaga þræðir stjörnuna IRAS 10082-5647. Þetta himneska ský er endurskinsþoka úr gasi og ryki sem lýsir vegna þess að hún endurvarpar ljósi frá stjörnunni í miðjunni, sem í þessu tilviki er ung Herbig-Ae/Be stjarna.

Stjarnan, líkt og fleiri af þessari gerð, er enn tiltölulega ung, aðeins nokkurra milljóna ára gömul. Hún er ekki enn komin á meginraðarskeiðið svonefnda, þar sem hún mun verja um 80% af æviskeiði sínu í að mynda orku úr bruna vetnis í kjarna sínum. Þangað til mun stjarnan framleiða hita með þyngdarhruni: Þegar efni stjörnunnar fellur inn á við, verður hún þéttari og við það myndast gríðarlegur þrýstingur sem framkallar frá sér mikinn hita.

Stjörnur verja aðeins um 1% af æviskeiði sínu á þessu for-meginraðarskeiði. Fyrr en síðar hefur stjarnan hitnað nógu mikið vegna þyngdarhrunsins til að vetnisbruni geti hafist og borið stjörnuna inn á meginröðina þar sem hún þroskast og fullorðnast.

Myndin af þessari fallegu endurskinsþoku IRAS 10082-5647 var tekin með Advanced camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Notaðar voru síur fyrir sýnilegt (555 nm) og nær-innrautt ljós (814 nm) og myndirnar litaðar bláar og rauðar. Sjónsviðið er aðeins um 1,3 x 1,3 bogamínútur.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: IRAS 10082-5647

  • Tegund: For-meginraðar stjarna

  • Stjörnumerki: Fönix

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli