Lognið á eftir stjörnustorminum

28. nóvember 2011

  • SDSS J162702.56+432833.9, Sporvöluvetrarbraut, Vetrarbraut,
    SDSS J162702.56+432833.9 er sporvöluvetrarbraut sem talið er að sé eftirfari vetrarbrautaárekstra.

Á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sést fremur dreifð vetrarbraut. Útlit hennar er líklega afleiðing löngu liðinna árekstra vetrarbrauta. Tvær þyrilvetrarbrautir, ekki ósvipaðar Vetrarbrautinni okkar, snerust hvor um aðra í milljónir ára.

Við slíkan samruna togast og teygist á upprunalegu vetrarbrautunum á meðan þær vefjast um sameiginlega massamiðju. Þegar storminn lægir situr eftir ný hringlaga vetrarbraut. Daufa fyrirbærið sem hér sést nefnist SDSS J162702.56+432833.9 og er sporvöluvetrarbraut.

Þegar vetrarbrautir rekast á — sem er mjög algengt í alheiminum — verður stjörnumyndunarhrina þegar gasskýin í vetrarbrautunum rekast saman. Á þeim tíma er blár blær yfir vetrarbrautunum sem gefur ekki kulda til kynna heldur þann gríðarlega hita sem stafar af nýmynduðum bláhvítum stjörnum. Bláu stjörnurnar endast ekki mjög lengi og eftir nokkra milljarða ára verða vetrarbrautirnar rauðleitari vegna gamalla rauðra stjarna. Hubblessjónaukinn hefur hjálpað stjörnufræðingum að skilja þessi þróunarferli með því að fylgjast með vetrarbrautaárekstrum á öllum stigum ferlisins.

Í SDSS J162702.56+432833.9 ber dökkar rykslæður fyrir bláleita miðju hennar. Þessar slæður gætu verið leifar þyrilarma upprunalegu vetrarbrautanna.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubblesjónaukanum. Hún var tekin í gegnum rauða og bláa síu. Sjónsviðið spannar um það bil 2,4 x 2,4 bogamínútur

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: SDSS J162702.56+432833.9
  • Tegund: Sporvöluvetrarbraut

Myndir

Tengt efni

Ummæli