Heppileg uppröðun vetrarbrauta

19. desember 2011

  • Hestaskeifa alheimsins, Einstein hringur, þyngdarlinsa
    Hestaskeifa alheimsins er vetrarbraut sem myndar skeifulaga boga utan um rauða bjarta vetrarbraut sem virkar sem þyngdarlinsa.

Áhugaverð vetrarbraut hefur verið merkt inn á þessa mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Vetrarbrautin -- sem tilheyrir flokki vetrarbrauta sem nefndur hefur verið bjartar rauðar vetrarbrautir -- er óvenju massamikil, um tíu sinnum massameiri en vetrarbrautin okkar. Hins vegar er það bláa hringlaga fyrirbærið umhverfis rauðu vetrarbrautina sem fangar athyglina.

Þetta hringlaga fyrirbæri er fjarlæg vetrarbraut sem öflugt þyngdartog massamiklu björtu rauðu vetrarbrautarinnar í forgrunni hefur magnað upp og aflagað svo úr verður næstum fullkominn hringur. Til að sjá þennan svokallaðan Einstein hring þurfa vetrarbrautirnar í forgrunni og bakgrunni að raða sér heppilega upp, svo viðurnefni þessa fyrirbæris, „Skeifan“ er einkar viðeigandi.

Skeifan er eitt besta dæmið um Einstein hring. Hún veitir okkur einnig heillandi innsýn í hinn unga alheim: Rauðvik bláu vetrarbrautarinnar -- mælieining sem segir til um hversu mikið bylgjulengd ljóssins hefur lengst vegna útþenslu alheimsins -- er um það bil 2,4. Það þýðir að við sjáum hana eins og hún leit út um 3 milljörðum ára eftir Miklahvell. Alheimurinn er nú um 13,7 milljarða ára gamall.

Stjarneðlisfræðingar uppgötvuðu Skeifuna árið 2007 í gögnum Sloan Digital Sky Survey. Þessi mynd Hubbles var hins vegar tekin með Wide Field Camera 3 sem sýnir þetta heillandi fyrirbæri í miklu meiri smáatriðum.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum í sýnilegu og innrauðu ljósi. Sjónsviðið er um 2,6 bogamínútur á breidd.

Mynd: NASA/ESA og Hubble.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Hestaskeifa alheimsins

  • Tegund: Vetrarbraut / þyngdarlinsa

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli