Sauður í Wolf-Rayet gæru

13. febrúar 2012

  • Hen 3-1333, Hringþoka, Wolf-Rayet, Wolf-Rayet afbrygði
    Hen 3-1333 er hringþoka. Í miðju þokunnar býr Wolf-Rayet gerð stjörnu sem breytir birtu sinni lotubundið. Mynd: NASA/ESA og Hubble.

Alheimurinn er síbreytilegur; meira að segja fastastjörnurnar, sem virðast stöðugar og óbreytanlegar nótt eftir nótt, geta tekið miklum breytingum.

Þessi mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sýnir hringþokuna Hen 3-1333. Hringþokur eru merki um dauðateygjur meðalstórra stjarna eins og sólarinnar okkar. Þegar þær þeyta frá sér ytri lögum sínum verða til stórir, óreglulegir hjúpar úr glóandi gasi sem þenjast út í kringum þær. Í gegnum sjónauka minna þessar þokur á plánetur og voru þær því nefndar plánetuþokur þegar menn komu auga á þær fyrst.

Stjarnan í miðju Hen 3-1333 er talin um 60% af massa sólarinnar, en ólíkt sólinni breytist birta hennar talsvert með tíma. Stjörnufræðingar telja að rekja megi þessa sveiflu til rykskífu sem liggur nánast á rönd frá jörðu séð og ber reglulega við stjörnuna.

Stjarnan er í miðjunni er afbrigði af Wolf-Rayet stjörnu og er eitt af lokastigunum í þróun stjarna á stærð við sólina. Hún ber mörg sömu einkenni og miklu stærri Wolf-Rayet stjörnur. En hvað er líkt með þeim? Bæði Wolf-Rayet stjörnur og Wolf-Rayet afbrigði eru heitar og bjartar vegna þess að helíumkjarnar þeirra eru berskjaldaðir: Þær fyrrnefndu vegna öflugra sólvinda sem er þeirra aðalsmerki en þær síðarnefndu vegna þess að stjarnan hefur varpað ytri lögum sínum frá sér þegar eldsneytið í kjarnanum er um það bil að klárast.

Fyrst helíumkjarninn, sem inniheldur mörg þung frumefni, er berskjaldarður, er yfirborðshitastig þessara stjarna miklu hærra en sólar, líklega milli 25.000 til 50.000°C. Til samanburðar er yfirborðshitastig sólar um 5.500°C.

Svo jafnvel þótt afbrigði Wolf-Rayet stjarna, eins og sú sem er í miðju Hen 3-1333, séu miklu smærri en stóru og orkuríkari systur þeirra, þá líkjast þær þeim á margan hátt: Þær eru sauðir í Wolf-Rayet gærum.

Þessi mynd, sem sýnir sýnilegt ljós, var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar um 26 bogasekúndur á himinhvelfingunni.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Hen 3-1333
  • Tegund: Hringþoka

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli