Hubble finnur fljúgandi furðuhlut

26. mars 2012

  • NGC 2683, Furðuhluturinn, Þyrilvetrarbraut, Gaupan
    NGC 2683 eða Furðuhluturinn er bjálkaþyrilvetrarbraut sem liggur í um 35 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Gaupunni.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur uppgötvað fljúgandi furðuhlut -- eða réttara sagt vetrarbraut sem líkist fljúgandi furðuhlut. NGC 2683 er þyrilvetrarbraut sem við sjáum næstum því á rönd svo hún líkist geimfari úr sígildum vísindaskáldsögum. Þess vegna hafa stjörnufræðingar við Astronaut Memorial Planetarium and Observatory gefið vetrarbrautinni viðurnefnið Furðuhluturinn.

Þegar við horfum ofan á vetrarbraut fáum við miklar upplýsingar um uppbyggingu hennar en að sjá vetrarbraut á rönd hefur líka sína kosti. Slíkt sjónarhorn gefur stjarneðlisfræðingum gott tækifæri til að rannsaka rykuga þyrilarmana, þar sem þeir vinda sig utan um gylltan kjarna vetrarbrautarinnar. Að auki skína þyrpingar blárra og ungra stjarna á víð og dreif í vetrarbrautinni og marka stjörnumyndunarsvæði hennar.

Ef til vill kemur það einhverjum á óvart en jafnvel þó að vetrarbrautir séu á rönd, kemur það ekki í veg fyrir að stjarneðlisfræðingar geti áttað sig á uppbyggingu þeirra. Rannsóknir á ljósi NGC 2683 bendir til að þetta sé bjálkaþyrilvetrarbraut, jafnvel þótt við sjáum það ekki beint frá þessu sjónarhorni.

Stjörnufræðingurinn frægi William Herschel uppgötvaði NGC 2683 þann 5. febrúar 1788 í stjörnumerkinu Gaupunni. Stjörnumerkið er ekki neft eftir kattardýrinu heldur vegna þess hve óljóst það er. Nota þarf „næm augu kattarins“ til að sjá það. Þegar maður loks kemur auga á það finnur maður fjársjóði eins og þennan, sem gerir leitina vel þess virði.

Þessi mynd var tekin í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Mjó en óljós ræma sem liggur lárétt yfir myndina er til komin vegna bils á milli ljósnemanna í Hubble. Ræman hefur verið lagfærð með myndum frá sjónaukum á jörðu niðri sem hafa ekki jafn góða upplausn. Sjónsviðið spannar um það bil 6.5 x 3.3 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 2683
  • Tegund: Bjálkaþyrilvetrarbraut
  • Fjarlægð: 35 milljónir ljósára

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli