Þyrilvetrarbraut í Vatnaskrímslinu

2. apríl 2012

  • NGC 4980, Þyrilvetrarbraut, Vatnaskrímslið, Hydra
    NGC 4980 er þyrilvetrarbraut sem liggur í um 80 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Þessi mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sýnir NGC 4980 sem er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu. Vetrarbrautarin virðist lítið eitt afmynduð sem oft er merki þess að hún hafi nýlega gerst nærgöngul við aðra vetrarbraut. Í tilviki NGC 4980 virðist þó sem svo sé ekki, þar sem engin önnur vetrarbraut er í næsta nágrenni hennar.

Myndin var tekin fyrir rannsóknarverkefni um eðli miðbungna í vetrarbrautum — björtu og þéttu miðsvæða þeirra. Alla jafna er töluverð óreiða í klassískum miðbungum þar sem stjörnurnar þjóta um miðju vetrarbrautarinnar í allar áttir. Í sumum vetrarbrautum sem hafa svonefndar gervibungur eða skífubungur, er hreyfing þyrilarmanna jöfn inn að miðju.

Þó svo að þyrilbyggingin sé tiltölulega óljós á þessari mynd hafa vísindamenn sýnt að NGC 4980 hefur skífulaga bungu og að hringhreyfing þyrilarmanna nær alveg inn að miðjunni.

Í björtum þyrilörmum vetrarbrauta eru stjörnumyndunarsvæði og þar er NGC 4980 engin undantekning. Armar hennar eru útataðir í heitum, bláum nýmynduðum stjörnum sem sjá má þvert yfir alla skífuna. Þessi staðreynd skilur NGC 4980 frá öðrum rauðleitum vetrarbrautum í bakgrunni sem eru fjarlægar sporvöluvetrarbrautir, byggðar af mun eldri og þess vegna rauðari stjörnum.

Þessi mynd er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndin er um það bil 3,3 x 1,5 bogamínútur af stærð.

Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 4980
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Fjarlægð: 80 milljónir ljósára

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli