Björt og þétt

9. apríl 2012

  • Messier 70, M70, Kúluþyrping, Bogmaðurinn
    Messier 70 er kúluþyrping í um 30.000 ljósára fjarlægð í stjönumerkinu Bogmanninum. Mynd: ESA/Hubble & NASA.

Hubblessjónaukinn tók þessa glæsilegu mynd af þéttum og björtum kjarna kúluþyrpingarinnar Messier 70. Í kúluþyrpingum er alltaf þröngt á þingi þar sem þyngdarkrafturinn bindur saman mörg hundruð þúsund stjörnur á litlu svæði á himninum. Kúluþyrpingar eru þess vegna vinsæl viðfangsefni stjörnuáhugamanna og stjörnufræðinga. Messier 70 er fremur sérstök því hún hefur gengið í gegnum svokallað kjarnahrun. Í slíkum þyrpingum þröngva enn fleiri stjörnur sér inn að kjarnanum en venjulega svo að birtan eykst stöðugt inn að honum.

Í þyrpingunni eru fylkingar stjarnanna á sporbraut um sameiginlega massamiðju. Sumar þeirra hafa tiltölulega hringlaga braut á meðan aðrar leggja lykkju á leið sína út að jaðri kúluþyrpingarinnar. Stundum gerast stjörnurnar nærgöngular svo með tímanum eiga léttari stjörnur til að auka hraða sinn og færast út til jaðarsins á meðan þær sem eru hægari og þyngri þrengja sér leið nær kjarnanum. Þetta myndar þéttan og bjartan kjarna sem einkennir kúluþyrpingar sem orðið hafa fyrir kjarnahruni.

Þó að margar kúluþyrpingar séu við jarðar vetrarbrautarinnar liggur sporbraut Messier 70 nálægt miðju hennar, eða um 30.000 ljósárum frá sólkerfinu okkar. Það er ótrúlegt að Messier 70 skuli haldast saman þrátt fyrir sterkt aðdráttarafl frá miðju vetrarbrautarinnar.

Messier 70 er aðeins um 68 ljósár í þvermál í stjörnumerkinu Bogmanninum og sést með handsjónaukum við góðar aðstæður þótt hún sé ansi dauf. Árið 1780 varð hún sjötugasta fyrirbærið í sögufrægri skrá franska stjörnufræðingsins Charles Messiers.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Camera á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar um 3,3 bogamínútur af himninum.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 70
  • Tegund: Kúluþyrping
  • Stjörnumerki: Bogmaðurinn
  • Fjarlægð: 30.000 ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli