Hubble myndar kastljós frumhringþoku

23. apríl 2012

  • Eggþokan, eggið, frumhringþoka, RAFGL 2688
    Eggþokan er frumhringþoka sem liggur í um 3.000 lljósára fjarlægð. Mynd: NASA & ESA/Hubble

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur verið í fremstu víglínu í rannsóknum á hvað hendi stjörnur eins og sólina okkar við ævilok þeirra (sjá til dæmis Hubblecast 51). Eitt af þeim stigum sem stjörnur ganga í gegnum þegar þær klára eldsneyti sitt, er frumhringþokustigið. Þess mynd Hubbles af Eggþokunni er ein sú besta sem tekin hefur verið af þessu stutta en áhrifamikla skeiði í lífi stjörnunnar.

Frumhringþokuskeiðið er stutt tímabil í þróun stjarna. Á nokkrum árþúsundum hita leifar stjörnunnar þokuna upp sem örvar gasið þannig að það byrjar að skína. Frumhringþokur endast stutt sem gerir það að verkum að þær eru harla fágætar. Ennfremur eru þær mjög daufar svo það þarf öfluga sjónauka til að sjá þær. Og einmitt vegna þess hve sjaldséðar þær eru er tiltölulega stutt síðan þær uppgötvuðust. Eggið, sú fyrsta sem fannst, sást fyrst fyrir minna en 40 árum síðan svo enn er margt á huldu um þessi dularfullu fyrirbæri.

Við miðju þessarar myndar, á bakvið þykk rykský, er stjarnan í miðju þokunnar. Þó við sjáum hana ekki beint, sjást fjórir ljósstólpar út frá frá henni. Talið er að hringlaga götin í þykku rykskelinni séu mynduð af strókum sem stjarnan sendir frá sér og hleypi ljósinu út í gegnum annars ógegnsætt skýið. Ekki er vitað nákvæmlega hvernig strókarnir mynda þessi göt en ein hugmyndin er sú að hugsanlega sé tvístirni í miðri þokunni en ekki aðeins ein stjarna.

Lauklaga svæðið í gasskýinu sem umlykur miðskelina, má rekja reglulegra gusa af efni sem deyjandi stjarnan varpar frá sér. Slíkar gusur verða á nokkur hundruð ára fresti.

Nokkur óvissa ríkir um fjarlægð Eggþokunnar frá jörðinni en talið er að hún sé í um 3.000 ljósára fjarlægð. Fyrir vikið hafa stjarneðlisfræðingar ekki góða mynd af stærð þokunnar. Hún gæti veirð stærri og lengra í burtu eða minni og mun nær.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru í sýnilegu og innrauðu ljósi með Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Eggþokan
  • Tegund: Frumhringþoka
  • Stjörnumerki: Svanurinn
  • Fjarlægð: 3.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli