Þyrill innan í þyrli

21. maí 2012

  • ESO 498-G5, Þyrilvetrarbraut, Þyrill innan í þyrli
    ESO 498-G5 er þyrilvetrarbraut í um 100 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Áttavitanum. Mynd: NASA & ESA/Hubble

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af þyrilþokunni ESO 498-G5. Það sem er merkilegt vi hana er að þyrilarmarnir ná alveg inn að kjarnanum svo að það lítur út fyrir að hann sé sjálfur lítil þyrilþoka. Þetta er þveröfugt við það sem gengur og gerist í öðrum þyrilþokum. Sporvölulaga kjarnar þeirra minna fremur á glóandi massa líkt og hjá NGC 6384.

Stjörnufræðingar kalla áberandi þyrillaga kjarna, líkt og í ESO 496-G5, skífukjarna eða gervikjarna á meðan bjartir sporvölulaga kjarnar eru kallaði klassískir kjarnar. Mælingar Hubblessjónaukans hafa hjálpað til við að sýna fram á tilvist þessara þyrillaga kjarna. Þær sýna líka fram á að stjörnumyndun á sér enn stað í skífukjörnum en er hætt í klassískum kjörnum. Þetta segir okkur að vetrarbrautir minna stundum á babúskur: Klassískir kjarnar líta út eins og litlar sporvöluþokur í þyrilþokum á meðan skífukjarnar líta út eins og litlar þyrilþokur í miðju þyrilþoka — þyrill innan í þyrli.

En það er ekki bara útlitið sem er líkt með vetrarbrautunum og miðbungum þeirra. Í risasporvölum eru klassískar bungur þar sem stjörnurnar ferðast á handahófskenndan hátt um hana. Í skífubungum ferðast stjörnurnar hins vegar eftir reglulegum sporbrautum, líkt og í þyrilörmum þessara vetrarbrauta. Munurinn bendir til þess að bungurnar hafi orðið til með ólíkum hætti: Klassískar bungur eru taldar myndast við árekstra vetrarbrauta en skífubungur hafi þróast með tímanum og orðið þyrillaga þegar gas streymdi inn að miðju vetrarbrautarinnar.

ESO 498-5G er í um 100 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Áttavitanum. Þessi mynd var búin til með myndum í sýnilegu og innrauðu ljósi frá Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar um 3,3 x 1,6 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: ESO 498-G5
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Stjörnumerki: Áttavitinn
  • Fjarlægð: 100 milljónir ljósára

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli