Svanurinn og fiðrildið

28. maí 2012

  • NGC 7026, Svanurinn, Hringþoka
    NGC 7026 er hringþoka við jaðar Svansins. Hún er staðsett í um 6000 ljósára fjarlægð. Mynd: NASA og ESA/Hubble

Þessi mynd frá Hubblessjónaukanum er af hringþokunni NGC 7026. Þokan er rétt fyrir utan stélið á stjörnumerkinu Svaninum. Þetta fiðrildalaga ský er leif stjörnu sem líktist sólinni okkar.

Hringþokur (e. planetary nebula) hafa ekkert með reikistjörnur að gera þrátt fyrir nafngiftina. Þær eru í raun tiltölulega skammlíf fyrirbæri sem verður til undir lok æviskeiðs meðalstórra stjarna. Þegar eldsneyti í kjarna stjörnunnar er uppurið, losna ytri lög hennar frá og aðeins heitur kjarninn situr eftir. Þegar ytri gasskelin hitnar, örvast atómin í því og hún lýsist upp eins og auglýsingaskilti.

Flúrljós á jörðinni fá skæra liti sína frá þeim gastegundum sem eru í perunum. Neonljósin frægu framkalla bjartan rauðan lit en útfjólublá ljós innihalda oftast kvikasilfur. Sama á við um gasþokur: Bjarta liti þeirra má rekja til gastegundanna sem í þeim eru.

Þessi mynd af NGC 7026 sýnir ljós stjörnunnar í grænu, ljós frá nitri í rauðu og ljós frá súrefni í bláu (í raun og veru virðist okkur ljós frá súrefni vera grænt en liturinn í þessari mynd hefur verið færður til að auka birtuskilin.

Fyrir utan að vera mjög björt í sýnilegu ljósi geislar þokan líka frá sér röntgenljósi sem XMM-Newton geimsjónauki ESA hefur rannsakað. Röntgengeislar verða til í þokunni vegna þess hve gríðarlega heitt gasið í NGC 7026 er.

Þessi mynd var sett saman úr ljósmyndum frá Wide Field and Planetary Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið spannar 35 bogasekúndur. Hún var send inn í myndasamkeppnina Hubble's Hidden Treasures af keppandanum Linda Morgan-O'Connor. Hidden Treasures gefur stjörnuáhugafólki færi á að leita í gagnagrunni Hubbles að fallegum myndum sem aldrei hafa sést áður.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 7026
  • Tegund: Hringþoka
  • Stjörnumerki: Svanurinn
  • Fjarlægð: 6000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli