Bjartur blossi í nálægri þyrilvetrarbraut

4. júní 2012

  • Messier 99, M99, Þyrilvetrarbraut, Þyrilarmur, PTF 10fqs
    Þessi mynd sýnir nærmynd af þyrilörmum vetrarbrautarinnar Messier 99. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Þessi mynd Hubblessjónaukans sýnir þyrilarma á einni hlið vetrarbrautarinnar Messier 99 í háskerpu. Messier 99 er mjög tignarleg þyrilþoka með langa og vel afmarkaða arma og líkist vetrarbrautinni okkar á nokkurn hátt.

Messier 99, sem er í um 50 milljón ljósára fjarlægð, er ein af þúsundum vetrarbrauta sem mynda Meyjarþyrpinguna sem er nálægasta vetrarbrautaþyrpingin við okkur. Messier 99 sjálf er tiltölulega stór og björt en hún uppgötvaðist á 18. öld. Það skipaði henni verðugan sess í frægri skrá Charles Messier yfir djúpfyrirbæri á himninum.

Á undanförnum árum hafa fjölmörg óútskýrð fyrirbæri verið rannsökuð í Messier 99. Þeirra á meðal er ein af bjartari stjörnunum sem sést á myndinni. Hún nefnist PTF 10fqs og sést efst í vinstra horninu, gul-appelsínugul stjarna. Hún sást fyrst með Palomar Transiet Facility sem skannar himininn í leit að fyrirbærum sem auka skyndilega birtu sína. Þessar birtubreytingar geta orðið fyrir tilverknað ýmissa þátta, þar á meðal í sveiflustjörnum og sprengistjörnum.

Það sem er óvenjulegt við PTF 10fqs er að hingað til hefur reynst örðugt að flokka hana: Hún er of björt til að vera nýstirni (bjartur blossi af yfirborði stjörnunnar) en of dauf til að vera sprengistjarna (sprengingin sem markar endalok stjörnu, sé hún nægilega stór). Vísindamenn hafa lagt fram margvíslegar skýringar, þ.á.m. þá forvitnilegu tilgátu að risareikistjarna hafi hrunið inn í móðurstjörnu sína.

Þessi mynd Hubbles var tekin í júní 2010 þegar birtan var í niðursveflu svo staðsetning PTF 10fqs var ákvörðuð mjög nákvæmlega. Þessar mælingar munu gera öðrum stjörnusjónauknum kleift að rannsaka stjörnuna í framtíðinni, jafnvel þegar glæðurnar hafa dofnað.

Ein útgáfa af þessari mynd af M99 var send í Hubble's Hidden Treasures samkeppnina af keppandanum Matej Novak. Hidden Treasures gefur stjörnuáhugafólki færi á að leita í gagnagrunni Hubbles að fallegum myndum sem aldrei hafa sést áður. Keppninni er nú lokið og verða sigurvegarar kynntir bráðlega.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 99
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
  • Fjarlægð: 50 milljónir ljósára

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli