Aldraður stjörnuskari

16. júlí 2012

  • M107, Messier 107, Kúluþyrping, Naðurvaldi
    Messier 107 er kúluþyrping í stjörnumerkinu Naðurvalda. Hún er í um 20.000 ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af stjörnunum í Messier 107, einni af um 150 kúluþyrpingum sem sverma umhverfis vetrarbrautina okkar. Þessi kúlulaga söfn innihalda mörg hundruð þúsund gamlarstjörnur og eru meðal elstu fyrirbæra í alheiminum. Uppruni kúluþyrpinganna og áhrif þeirra á þróun vetrarbrauta eru enn fremur óljós svo stjarneðlisfræðingar halda áfram rannsóknum sínum á þeim, með því að taka myndir eins og þá sem sést hér að ofan frá Hubble.

Miðað við kúluþyrpingar almennt er M107 ekkert sérstaklega þétt. Sé hún borin saman við aðrar kúluþyrpingar, eins og M53 eða M54, sést að Messier 107 er ekki eins samþjöppuð. Því verða einstakar stjörnur mun greinilegri.

Messier 107 er að finna í stjörnumerkinu Naðurvalda og er hún í um 20.000 ljósára fjarlægð.

Það var franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain sem fann fyrirbærið fyrstur manna árið 1782 en breski stjörnufræðingurinn William Herschel skrásetti það sjálfur ári seinna. Kanadíski stjörnufræðingurinn Helen Sawyer Hogg, bætti Messier 107 við hina frægu skrá Charles Messier árið 1947.

Þessi mynd var sett saman með Wide Field Camera á Hubble. Sjónsvið myndarinnar spannar um 3,4 bogamínútur.

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 107

  • Tegund: Kúluþyrping

  • Stjörnumerki: Naðurvaldi

  • Fjarlægð: 20.000 ljósár

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli