Flugfiskurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Flugfiskurinn
    Kort af stjörnumerkinu Flugfisknum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Volans
Bjartasta stjarna: γ Volantis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
12
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Gliese 293
(19,3 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Stjörnumerkið Flugfiskurinn á rætur að rekja til loka 16. aldar. Þá bjó hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius til merkið út frá þeim stjörnum sem landar hans, sæfarendurnir Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman, skrásettu í fyrstu leiðangrum Hollendinga til Austur Indía.

Flugfiskurinn er þekktur í suðurhöfum sem fiskurinn sem getur stokkið upp úr vatni og svifið um loftið á vængjum. Fyrir kom að flugfiskur lenti á þilfara skipa sæfarendanna og enda þá sem matur fyrir skipverja.

Á himninum er Flugfiskurinn sýndur eltur af rándýrinu Sverðfisknum. Merkið birtist fyrst á hnattlíkani Hollendingsins Jodocus Hondius í Amsterdam árið 1598, þá undir nafninu Vliegendenvis. Árið 1603 nefndi Jóhann Bayer merkið Piscis Volans eða Flugfiskurinn.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Björtustu stjörnur Flugfisksins eru af fjórða birtustigi og bera engin formleg nöfn. Bjartasta stjarna merkisins er Gamma Volantis (birtustig +3,6).

  • α Volantis er hvít stjarna af A gerð í um 124 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er líklega um 8.000°C heit, 29 sinnum bjartari en sólin, rúmlega tvöfalt breiðari og tvisvar sinnum massameiri. Alfa Volantis er þriðja bjartasta stjarna Flugfisksins.

  • γ Volantis er tvístirni í um 142 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarnan er appelsínugulur K-risi, um 7000°C heitur, 71 sinnum bjartari en sólin, næstum 13 sinnum breiðari og meira en tvisvar sinnum massameiri. Smærri og daufari stjarnan er hins vegar F-dvergur, um 4000°C heitur, 8 sinnum bjartari en sólin, tvisvar sinnum breiðari og 60% massameiri.

  • δ Volantis er í um 738 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er bjartur F-risi sem dofnar talsvert vegna ryks í vetrarbrautinni okkar. Hún er um 6000°C heit og skín á við 2900 sólir. Hún er 50 sinnum breiðari og næstum sjö sinnum massameiri en sólin.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Flugfiskurinn
Stjörnumerkið Flugfiskurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Flugfisknum eru nokkur djúpfyrirbæri, þeirra á meðal þyrilvetrarbrautin NGC 2442 eða Kjötkróksvetrarbrautin sem er í 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Stjörnukort

Stjörnukort af Flugfisknum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Volans the Flying Fish

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Volans

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphavol.html

  4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/gammavol.html

  5. http://stars.astro.illinois.edu/sow/deltavol.html