Sprengistjarna í NGC 5806

27. ágúst 2012

  • NGC 5806, Þyrilvetrarbraut, Sprengistjarna, SN2004dg, Meyjan
    NGC 5806 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Meyjunni. Hún liggur í um 80 milljóna ljósára fjarlægð. Neðst á myndinni má sjá leifar sprengistjörnunnar SN2004dg. Mynd: ESA/Hubble og NASA

Þessi nýja mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA er af NGC 5806, þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Meyjunni. Hún er í um 80 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á myndinni sést einnig sprengistjarnan SN2004dg.

Myndin var tekin í byrjun árs 2005 til að staðsetja nákvæmlega stjörnuna sem sást springa árið 2004. Neðarlega hægra megin á vetrarbrautinni sjást gulleitar glæður ljóssins risastjarnan sendi frá sér þegar hún endaði ævi sína.

NGC 5806 var ein af mörgum vetrarbrautum sem valdar voru fyrir rannsóknir á sprengistjörnum því til voru myndir í gagnasafni Hubbles af vetrarbrautinni áður en stjarnan sprakk. Þar sem sprengistjörnur eru tiltölulega sjaldgæfar og ógerlegt er að spá fyrir um þær, eru myndir teknar fyrir og eftir atburðinn mjög mikilvægar fyrir stjarneðlisfræðinga sem rannsaka þessa mikilfenglegu atburði.

Að sprengistjörnunni undanskildri er NGC 5806 harla venjuleg vetrarbraut. Hún er hvorki stór né lítil, nálæg eða fjarlæg.

Miðbunga vetrarbrautarinnar (þéttasta svæðið í miðju hennar) er skífubunga þar sem þyrilbyggingin nær alveg inn að miðjunni. Hún inniheldur einnig virkan vetrarbrautarkjarna, risasvarthol sem togar til sín mikið magn efnis úr sínu nánasta umhverfi. Þegar efnið hringast umhverfis svartholið hitnar það og sendir frá sér orkumikla geislun.

Þessi mynd var búin til úr þremur myndum sem teknar voru í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys. Sjónsviðið er um það bil 3,3 x 1,7 bogamínútur. Ein útgáfa myndinni var send inn í Hubble's Hidden Treasures myndasamkeppnina af Andre van der Hoeven, sem vann önnur verðlaun fyrir mynd sína af Messier 77.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 5806
  • Tegund: Vetrarbraut
  • Stjörnumerki: Meyjan
  • Fjarlægð: 80 milljónir ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli