Svöl mynd af Andrómeduþokunni

4. febrúar 2013

  • Andrómeduþokan, Messier 31, vetrarbraut, þyrilvetrarbraut
    Andrómeduþoka, Messier 31, í stjörnumerkinu Andrómedu. Mynd: ESA/NASA

Herschel geimsjónauki ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu, tók þessa svölu mynd af Andrómeduþokunni. Á henni sjást köld stjörnumyndunarsvæði í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr.

Andrómeduþokan, einnig þekkt sem Messier 31, er nálægasta stóra vetrarbrautin við Vetrarbrautina okkar. Hún er í 2,5 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og sést með berum augum á næturhimninum við góðar aðstæður. Nálægðin gerir hana að fyrirtaks viðfangsefni fyrir stjörnufræðinga sem rannsaka myndun stjarna og þróun vetrarbrauta.

Herschel geimsjónaukinn nemur fjar-innrautt ljós sem berst frá köldum gas- og rykskýjum í vetrarbrautinni; stöðum þar sem stjörnur eru að myndast. Á þessari nýju mynd er kaldasta rykið í vetrarbrautinni rautt á litinn, aðeins nokkrar gráður yfir alkuli.

Hlýrri svæði, t.d. þétta svæðið í miðju vetrarbrautarinnar, þar sem eldri stjörnur er að finna, taka hins vegar á sig bláleitan blæ.

Í þessari 200.000 ljósára breiðu vetrarbraut sjást margar fíngerðar myndanir, þar á meðal stjörnumyndunarsvæðin í þyrilörmunum og að minnsta kosti fimm þéttir stjörnumyndunarhringir sem dökkar geilar, snauðar af myndunarsvæðum stjarna, aðskilja.

Í Andrómeduþokunni eru nokkur hundruð milljarðar stjarna en eins og sjá má á myndinni eiga fjölmargar enn eftir að verða til.

Mynd: ESA/Herschel/PACS & SPIRE Consortium, O. Krause, HSC, H. Linz

Um fyrirbærið

Mynd í hærri upplausn

Tengt efni

Ummæli