Herschel skoðar Riddaraþokuna

22. apríl 2013

  • Riddaraþokan, Barnard 33, sameindaskýið í Óríon
    Riddaraþokan í sameindaskýinu mikla í Óríon séð með Herschel geimsjónaukanum

Þessa glæsilegu mynd tók Herschel geimsjónauki ESA, Geimvísindastofnunar Evrópu. Á henni sést hluti af sameindaskýinu mikla í stjörnumerkinu Óríon, sem er í um 1.300 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, í fjar-innrauðu ljósi. Hér fæðast nýjar stjörnur ört.

Við hægri enda myndarinnar fyrir miðju rís Riddaraþokan fræga upp úr bleikleitum gas- og rykveggnum. Athyglisvert er að bera þessa mynd saman við afmælismynd Hubble geimsjónaukans sem við birtum á Stjörnufræðivefnum í síðustu viku.

Riddaraþokan er skuggaþoka rétt sunnan við austustu stjörnuna í Fjósakonunum (Alnítak). Hún sést því miður ekki nema í gegnum stærstu áhugamannasjónauka og þá með hjálp sérstakrar þokusíu en er mjög glæsileg á ljósmyndum. Riddarinn „horfir“ í átt að Logaþokunni sem er skáhallt fyrir ofan.

Orkurík geislun frá hvítvoðungum í skýinu hitar upp gasið og rykið. Það gefur þá frá sér innrautt ljós sem Herschel geimsjónaukinn sér.

Mynd: ESA/Herschel/PACS, SPIRE/N. Schneider, Ph. André, V. Könyves (CEA Saclay, Frakklandi) fyrir „Gould Belt survey” Key Programme

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Um fyrirbærið

Tengt efni

Ummæli