Riddaraþokan

Barnard 33 (IC 434)

  • Riddaraþokan, Barnard 33, Hesthöfuðþokan, IC 434
    Riddraþokan í Óríon. Mynd: Nigel Sharp/NOAO
Helstu upplýsingar
Tegund: Skuggaþoka
Stjörnulengd:
05klst 40mín  59,0sek
Stjörnubreidd:
-02° 27′ 30,0"
Fjarlægð:
1.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
-
Hornstærð:
8x6 bogamínútur
Radíus:
-
Stjörnumerki: Óríon
Önnur skráarnöfn:
Barnard 33, IC 434

Riddaraþokan er í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er hluti af Óríon sameindaskýinu, sem meðal annars inniheldur Sverðþokuna í Óríon. Þokan er þekkt fyrir að líkjast hesthöfði eða riddara á skákborði og dregur nafn sitt af því. Riddaramyndunin er þykkt, dökkt ryk- og gasský sem skyggir á björtu bakgrunnsþokuna.

Riddaraþokan fannst á ljósmyndaplötu sem tekin var með sjónauka stjörnustöðvar Harvardháskóla árið 1888. Stjarnan σ (sigma) Orionis lýsir upp Riddaraþokan en hún er staðsett rétt fyrir ofan myndina hér hægra megin. Björtu blettirnir í Riddaraþokunni eru ungar nýmyndaðar stjörnur. Þræðirnir sem virðast teygja sig til vinstri og hægri frá riddaraþokunni eru taldir myndast af völdum segulsviðs nálægra stjarna. Gulleita þokan sem umlykur V615 Orionis (neðarlega vinstra megin) eru svonefnd Herbig-Haro fyrirbæri. Herbig-Haro fyrirbæri eru bjartir efnishnoðrar að þéttast og verða að stjörnum.

Riddaraþokan er mjög dauf og verða margir fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir átta sig á hversu erfitt er að koma auga á þokuna. Það er ekki ómögulegt en krefst þess að þú eigir stóran stjörnusjónauka, helst 8 tommur eða stærri, og hafir mikla þolinmæði og reynslu í stjörnuskoðun. Himinninn verður að vera eins dimmur og auðið er og stjörnuskyggni gott. Mikilvægt er að eiga vetnis-beta síu til að sjá þokuna í sjónauka. Riddaraþokan er hins vegar mjög vinsælt myndefni meðal stjörnuljósmyndara, enda miklu auðveldara að ljósmynda hana.