Hubble skoðar sprengistjörnu í M82

3. mars 2014

  • Mynd Hubble geimsjónaukans af sprengistjörnunni SN 2014J í Messier 82
    Mynd Hubble geimsjónaukans af sprengistjörnunni SN 2014J í Messier 82

Stjörnufræðingar beindu nýverið Hubble geimsjónauka NASA og ESA að sprengistjörnunni SN 2014J í Messier 82. Sprengistjarnan fannst þann 21. janúar 2014 og er sú nálægasta sem sést hefur frá Jörðinni um árabil.

Athuganir sýndu fljótt að sprengistjarnan er af gerð Ia, nokkuð sem var sérstaklega spennandi fyrir stjörnufræðinga. Hægt er að nota slíkar sprengistjörnur til að gera nákvæmar fjarlægðarmælingar í alheiminum.

Myndin af sprengistjörnunni var tekin 31. janúar 2014 með Wide Field Camera 3 á Hubble en hún hefur verið lögð ofan á samsetta mynd af vetrarbrautinni allri sem tekin var árið 2006 með Advanced Camera for Surveys.

Messier 82 er þyrilvetrarbraut í aðeins 12 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Stórabirni. Sprengistjarnan hefur sést vel með stjörnusjónaukum undanfarnar vikur en er farin að dofna.

Mynd af sprengistjörnunni: NASA, ESA, A. Goobar (Stockholm University) og Hubble Heritage.

Mynd af Messier 82: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA).
Þakkir: J. Gallagher (University of Wisconsin), M. Mountain (STScI) og P. Puxley (NSF).

Ummæli