Bogi mótaður af þyngdarkraftinum

26. september 2011

  • LRG-4-606, Rauð vetrarbraut, Þyngdarlinsa
    LRG-4-606 er björt rauð vetrarbraut sem ásamt nágrannavetrarbrautum valda þyngdarlinsuhrifum.

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sjást athyglisverð form í vetrarbrautaþyrpingu í kringum fyrirbæri sem nefnist LRG-4-606. LRG stendur fyrir „Bjarta rauða vetrarbraut“ (e. Luminus Red Galaxy) sem er skammstöfun fyrir stórt safn bjartra rauðra vetrarbrauta sem fundist hafa við Sloan Digital Sky Survey kortlagningarverkefnið. Þessi fyrirbæri eru að mestu massamiklar sporvöluvetrarbrautir sem geyma gífurlegan fjölda gamalla stjarna.

Það er sláandi að hugsa til þess hversu margar stjörnur hljóta að vera á þessari mynd -- mörg hundruð milljarðar -- en hún sýnir líka eitt furðulegasta fyrirbæri sem stjarneðlisfræðingar þekkja. Þessi rauða vetrarbraut, ásamt vetrarbrautunum í kring, eru staðsettar þannig að þyngdarsvið þeirra hafa mjög mikilfengleg áhrif.

Til vinstri við miðja myndar hafa bláar vetrarbrautir verið teygðar og togaðar í daufa mjóa boga. Ástæðan er áhrif sem nefnd eru þyngdarlinsuhrif. Vetrarbrautarþyrpingin hefur svo sterkt þyngdarsvið að það sveigir rúmið og magnar birtu mun fjarlægari vetrarbrauta. Þyngdarlinsur mynda venjulega ílanga boga en hér myndar uppröðun vetrarbrautanna hálfhring sem er óvenjulegt.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru í sýnilegu og nær-innrauðu ljósi með Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum. Myndin spannar um það bil 3x3 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: LRG - 4 - 606

  • Tegund: Vetrarbraut / Þyngdarlinsa

Myndir

Tengt efni

Ummæli