Risaskel úr gasi og stjörnum könnuð

21. nóvember 2011

  • LH 72, Stóra Magellanskýið, Risaskel, LMC4
    LH 72 er risaskel úr gasi og stjörnum í Stóra Magellansskýinu.

Í einu stærsta stjörnumyndunarsvæði sem vitað er um í Stóra Magellansskýinu, lítilli fylgivetrarbraut okkar vetrarbrautar, eru bjartir og ungir stjörnuhópar sem kallast OB stjörnufélög. Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið glæsilega mynd af einu þeirra, LH 72, en í því eru nokkrar hámassastjörnur og ungar stjörnur sem enn eru umluktar þéttu vetnisgasi.

Stjörnumyndunin í Stóra Magellansskýinu á sér að stórum hluta stað í risavöxnum gasskeljum. Þær eru taldar myndast vegna sterkra sólvinda og sprengistjarna sem ryðja burt efni umhverfist stjörnurnar svo úr verða vindblásnar skeljar. Gasið sem blæs burt kólnar á endanum og leysist upp í smærri ský við útjaðar skeljarinnar, byrjar að falla saman og mynda nýjar stjörnur.

Stærsta gasskelin í LH 72 er nefnd LMC4. Hún er um 6.000 ljósár í þvermál og sú stærsta sem vitað er um í okkar næsta nágrenni. Rannsóknir á stjörnuhópum sem eru umluktir gasskýjum, eins og LH 72, er góð leið til að rannsaka myndun og þróun risagasskelja.

Þessi mynd var tekin með Wide Field Planetary Camera 2 á Hubblessjónaukanum í gegnum fimm mismunandi síur á útfjólubláa, sýnilega og innrauða sviðinu. Sjónsviðið spannar um 1,8 x 1,8 bogamínútu af himninum.

Um fyrirbærið

  • Nafn: LH 72
  • Tegund: Gasskel
  • Stjörnumerki: Paradísarfuglinn
  • Fjarlægð: 160.000 ljósár

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli