Frostþokan í Ljóninu

5. desember 2011

  • IRAS 09371+1212, Frumhringþoka, Ljónið, Frostþokan
    IRAS 09371+1212 eða Frostþokan í Ljóninu er frumhringþoka í 3.000 ljósárafjarlægð sem myndast hefur fjarri vetrarbrautarplaninu.

Í þrjú þúsund ljósára fjarlægð frá jörðu er furðuleg hringþoka sem nefnist IRAS 09371+1212, eða Frostþokan í Ljóninu. Frostþokan er frumhringþoka sem myndast þegar háaldraðar stjörnur þeyta frá sér efni. Þokan fékk þetta sérkennilega nafn vegna þess hve hún inniheldur mikið af vatnsískristöllum og auðvitað vegna staðsetningu sinnar í stjörnumerkinu Ljóninu.

Þessi gasþoka er sérstaklega athyglisverð vegna þess hve langt frá plani vetrarbrautarinnar hún myndaðist, þar sem engin rykský skyggja á. Uppbygging hennar er flókin. Umhverfis stjörnuna í miðjunni er kúlulaga hjúpur og skífa, flipar og gríðarstórar lykkjur. Þessi flókna uppbygging bendir eindregið til þess að myndunarferli þokunnar sé mjög flókið og þar gæti hugsanlega leynst önnur stjarna, hulin sjónum okkar, sem leikur lykilhlutverk í mótun þokunnar.

Frumhringþokur eins og Frostþokan í Ljóninu eru mjög skammlíf fyrirbæri á stjarnfræðilegan mælikvarða. Þær eru undanfari hringþokuskeiðsins sem hefst þegar geislar stjörnunnar í miðjunni lýsir upp gasið. Sú staðreynd að þær eru fremur sjaldgæf fyrirbæri gerir þær að mikilvægu viðfangsefni stjörnufræðinga sem leitast við að skilja þróunarferli stjarna.

Þessi mynd var sett saman úr myndum sem teknar voru með Advaced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndavélin ljósmyndar aðeins lítinn hluta af himninum í einu (aðeins 26 x 29 bogasekúndur) í háum gæðum.

Um fyrirbærið

  • Nafn: IRAS 09371+1212
  • Tegund: Frumhringþoka
  • Fjarlægð: 3.000 ljósár
  • Stjörnumerki: Ljónið

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli