Ljósár

  • stjörnur, stjörnuþyrping, sól, sólstjarna
    Stjörnuþyrping í Tarantúluþokunni

Yfirlit

Alheimurinn er svo feykilega stór að lítið vit er í að nota kunnuglegar mælieiningar eins og metra, sem henta vel á jörðinni. Þessi í stað eru fjarlægðir í geimnum mældar með hraða ljóssins. Ljósgeisli ferðast næstum 300.000 km eða sjö sinnum umhverfis jörðina á sekúndu. Á rúmlega átta mínútum ferðast ljósið frá sólinni til jarðar, 150 milljón km vegalengd. Við getum því sagt að sólin sé í rúmlega átta ljósmínútna fjarlægð. Á einu ári berst ljósgeisli næstum tíu trilljón kílómetra út í geiminn. Þessi lengdareining, sú vegalengd sem ljós ferðast á einu ári, kallast ljósár. Ljósár mælir ekki tíma heldur fjarlægðir – gífurlegar fjarlægðir – milli stjarna og vetrarbrauta.

Ljósið ferðast með endanlegum hraða. Það þýðir að þegar þú horfir út í geiminn horfir þú aftur í tímann. Hversu langt aftur í tímann veltur á fjarlægðinni til stjörnunnar sem þú horfir á. Næsta stjarna við sólkerfið okkar er Proxima Centauri. Til hennar eru meira en fjögur ljósár. Það þýðir að ljósgeisli er fjögur ár á leið frá henni til okkar og öfugt, svo ef þú gæti litið á hana í gegnum stjörnusjónauka sæir þú hana eins og hún leit út fyrir meira en fjórum árum. Hraðfleygasta geimfar, sem sent hefur verið út í geiminn, væri yfir 70 þúsund ár að ferðast þessa vegalengd.

Samt eru fjögur ljósár er smotterí. Flestar stjörnur eru í hundruð og þúsunda ljósára fjarlægð. Vetrarbrautina okkar er í kringum 100.000 ljósár í þvermál og að næstu vetrarbraut eru um 2,5 milljónir ljósára. Á ljóshraða tæki ferðalag til hennar 2,5 milljónir ára. Ljósið sem við sjáum í dag í Andrómeduvetrarbrautinni lagði af stað þegar engir menn voru á jörðinni.

Fjarlægustu fyrirbæri sem sést hafa í alheimi eru í rúmlega 13 milljarða ljósára fjarlægð. Ljósið frá þeim lagði af stað þegar alheimurinn var barnungur, innan við einum milljarði ára eftir Miklahvell, og meira en 7 milljörðum árum áður en jörðin varð til.

Tengt efni:

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Ljósár. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/ljosar (sótt: DAGSETNING).