Dauf vetrarbraut með bleikum skeljum

26. desember 2011

  • IC 2574, Dvergvetrarbraut, Óregluleg vetrarbraut, Coddington, Þoka Coddingtons
    IC 2574, eða þoka Coddingtons, er óregluleg dvergvetrarbraut í um 12 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Stórabirni.

Hubblessjónauki NASA og ESA hefur tekið mynd af forvitnilegu fyrirbæri sem nefnist IC 2574. Í þessari daufu vetrarbraut eru bleikar kúlur sem sprengistjörnur hafa myndað fyrir langa löngu. Rekja má lit þessara kúluskelja til vetnisgass sem glóir fyrir tilstilli ungra stjarna. Hrina stjörnumyndunar hefur átt sér stað þegar höggbylgjur sprengistjarnanna þéttu efninu saman.

IC 2574 er betur þekkt sem þoka Coddingtons eftir stjörnufræðingnum Edwin Coddington sem uppgötvaði hana árið 1898. Stjörnufræðingar flokka IC 2574 sem óreglulega dvergvetrarbraut vegna smæðar hennar og óreglulegrar lögunar. Vetrarbrautir af þessu tagi eru taldar svipa til þeirra vetrarbrauta sem fyrst mynduðust í alheiminum. Óreglulegir dvergar eru því gagnlegir steingervingar sem nýtast við rannsóknir á þróun flóknari vetrarbrauta, líkt og vetrarbrautina okkar sem hefur miðbjálka og þyrilarma. Skeljarnar sem þenjast út í IC 2574 vekja sérstakan áhuga stjarneðlisfræðinga því þær sýna hvernig sprengistjörnurnar hafa hrundið af stað nýrri hrinu stjörnumyndunar.

IC 5274 er í um 12 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Stórabirni og tilheyrir Messier 81 vetrarbrautahópnum. Sá hópur er nefndur eftir björtustu og mest rannsökuðu vetrarbrautinni í hópnum, þyrilþokunni Messier 81.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys en sjónsviðið er um 3,3 x 3,3 bogamínútur.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: IC 2574
  • Tegund: Dvergvetrarbraut
  • Fjarlægð: 20 milljón ljósár
  • Stjörnumerki: Stóribjörn

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli