Reykur án elds - Annað sjónarhorn á Vindilsþokuna

2. janúar 2012

  • Messier 82, M82, Vindilsþokan, Vindillinn, Vetrarbraut
    Messier 82 er vetrarbraut í stjörnumerkinu Stórabirni sem liggur í um 12 milljón ljósára fjarlægð.

Þessi mynd sýnir kjarna Messier 82, einnig þekkt sem Vindillinn, í meiri upplausn en nokkru sinni fyrr. M82 er óvenju björt því í henni mikið um ryk, ungar stjörnur og glóandi gasský auk þess sem hún er tiltölulega nálægt okkur. Vetrarbrautin er í aðeins um 12 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Stórabirni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hubble hefur ljósmyndað Vindilinn. Eldri myndir (til dæmis í frétt frá 2004) sýna vetrarbraut sem logar af stjörnum. Þessi mynd er hins vegar gerólík þeim en á myndinni er glóandi gas og ryk ríkjandi en stjörnur nánast ósýnilegar. Hvers vegna er þessi munur?

Nýja myndin er í miklu meiri upplausn en eldri myndir og sýnir meiri smáatriði í vetrarbrautinni en nokkur önnur mynd. En helsta ástæða þess að hún er svo gerólík öðrum myndum byggist á þeim ákvörðunum sem stjörnufræðingar taka þegar þeir skipuleggja mælingar sínar. Myndavélar Hubbles greina ekki liti heldur eru þær næmar fyrir víðu bylgjulengdarsviði. Ljósmyndirnar eru svarthvítar en litmyndirnar eru búnar til þannig að ljósinu er beint í gegnum mismunandi litsíur. Þeim er síðan blandað saman í eina lokaútgáfu; litmynd sem byggir á því hvaða síur voru notaðar.

Með notkun á síum sem hleypa í gegn ljósi með breiðu litasviði, svipuðu því sem augu okkar greina, verður myndin að lokum í eðlilegum litum og með stjörnum sem skína skært yfir allt litrófið.

Með því að nota síur sem hleypa í gegn bylgjulengdum sem tiltekin frumefni gefa frá sér, eins og á myndinni að ofan, er hægt að einangra ljós frá glóandi gasskýjum og skilja frá björtu ljósi stjarnanna. Þess vegna virðast sumar stjörnurnar á myndinni daufar og hvers vegna rykslæðurnar eru skýrar og skarpar frammi fyrir glóandi gasskýjunum.

Myndin sýnir ljós frá brennisteini (rautt), súrefni í sýnilegu og útfjólubláu ljósi (grænt og blátt) og ljós frá vetni (grænblátt). Sjónsviðið er um 2,7 x 2,7 bogamínútur.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 82
  • Tegund: Vetrarbraut
  • Fjarlægð: 12 milljón ljósár
  • Stjörnumerki: Stóribjörn

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli