Að sjá fjórfalt

23. janúar 2011

  • UZC J224030.2+032131, Einsteinkrossinn, Þyngdarlinsa, Dulstirni
    Einsteinkrossinn er sjónvilla sem verður til vegna þyngdarlinsuhrifa massamikillar vetrarbrautar í forgrunni dulstirnis.

Maður gæti haldið að vetrarbrautin sem sést á þessari mynd Hubblessjónauka NASA og ESA — þekkt sem UZC J224030.2+032131 — státi ekki af einum heldur fimm mismunandi kjörnum. Í raun er kjarni vetrarbrautarinnar einungis daufa og dreyfða fyrirbærið í miðju krossins sem myndaður er af fjórum öðrum punktum sem allir eru myndir fjarlægs dulstirnis langt fyrir aftan vetrarbrautin.

Myndin sýnir fræga sjónvillu sem þekkt er sem Einsteinkrossinn — sjónræn sönnun almennu afstæðiskenningarinnar. Krossinn er eitt besta dæmið um þyngdarlinsu: Massamikinn hlut sem sveigir ljósgeisla með þyngdarsviði sínu eins og Einstein spáði fyrir um á fyrri hluta 20. aldar. Í þessu tilviki virkar kraftmikið þyngdarafl vetrarbrautarinnar eins og linsa sem beygir og magnar ljósið frá dulstirninu á bakvið hana svo úr verða fjórar myndir af fjarlægara fyrirbærinu.

Dulstirnið birtist okkur eins og það leit út fyrir 11 milljörðum ára á meðan linsuvetrarbrautin er tíu sinnum nær okkur. Fyrirbærið er að finna í stjörnumerkinu Pegasusi. Uppröðun beggja fyrirbæra er óvenjuleg (innan við 0,05 bogasekúndur) og að hluta ástæða þess hvers vegna slíkar gerðir þyngdarlinsa sjást yfir höfuð.

Þessi mynd er líklega sú skarpasta sem tekin hefur verið af Einsteinkrossinum en hún var tekin með Wide Field & Planetary Camera 2 á Hubblessjónaukanum. Sjónsviðið er um 26 bogasekúndur.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: UZC J224030.2+032131
  • Tegund: Dulstirni / Þyngdarlinsa
  • Fjarlægð: 11 milljarðar ljósára
  • Stjörnumerki: Pegasus

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli