Fiðrildalaga hringþoka

12. mars 2012

  • NGC 6881, Fiðrildi, Hringþoka, Svanurinn
    NGC 6881 er hringþoka í stjörnumerkinu Svaninum.

Glæsileg fiðrildalaga hringþoka, NGC 6881, sést hér að ofan á mynd sem Hubblessjónauki NASA og ESA tók. Hringþokan er í stjörnumerkinu Svaninum og er byggð upp af innri þoku, sem er um fimmtungur úr ljósári í þvermál og samhverfum „vængjum“ sem teygja sig um eitt ljósár enda á milli. Samhverfan gæti stafað af tvístirni í miðju hringþokunnar.

NGC 6881 geymir deyjandi stjörnu í miðjunni sem vegur um 60% af massa sólarinnar. Hún er dæmi um fjórpólaða hringþoku sem þýðir að hún samanstendur af tveimur tvípóla kekkjum sem stefna í mismunandi áttir og fjórum flötum hringamyndunum. Sömuleiðis eru þrír hringir í miðju þokunnar.

Hringþoka er ský úr jónuðu gasi sem gefur frá sér ljós í mismunandi litum. Þær myndast venjulega þegar stjarna — rauður risi — nálgast ævilok sín og þeytir frá sér ystu lögum sínum vegna útþenslu og samdráttar til skiptis og frá og sterkra sólvinda.

Nakinn, heitur og bjartur kjarninn gefur frá sér útfjólubláa geislun sem örvar ystu lög stjörnunnar sem verða þá að nýmyndaðri hringþoku. Á einhverjum tímapunkti leysist þokan upp út í geiminn svo eftir situr stjarnan í miðjunni — hvítur dvergur — lokastig í þróun stjarna af þessu tagi.

Nafnið „hringþoka“ á rætur að rekja til 18. aldar þegar slíkar þokur sáust í fyrsta sinn í gegnum sjónauka og minntu um margt á skífur reikistjarnanna.

Hringþokur endast venjulega í einhverja tugi þúsunda ára, sem er mjög stutt skeið í þróun stjarna.

Þessi mynd var tekin í gegnum þrjár síur sem hleypa í gegn ljósi með tiltekna bylgjulengd, þ.e frá nitri (sýnt í rauðu), vetni (sýnt í grænu) og súrefni (sýnt í bláu).

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 6881
  • Tegund: Hringþoka
  • Fjarlægð: 5.200 ljósár
  • Stjörnumerki: Svanurinn

Myndir

Tengt efni

Ummæli