Dulstirni sem þyngdarlinsur

19. mars 2012

  • Dulstirni, SDSS J0919+2720, SDSS J1005+4016, SDSS J0827+5224, Hýsilvetrarbraut, Þyngdarlinsa
    Mynd af þremur dulstirnum, SDSS J0919+2720, SDSS J1005+4016 og SDSS J0827+5224 sem allar verka sem þyngdarlinsur. Mynd: NASA/ESA og Hubble.

Með hjálp Hubblessjónauka NASA og ESA hafa stjarneðlisfræðingar sett saman myndir af nokkrum vetrarbrautum sem geyma dulstirni. Dulstirnin verka sem þyngdarlinsur sem magna og bjaga ljós vetrarbrauta í bakgrunni.

Dulstirni eru meðal björtustu fyrirbæra alheimsins, miklu bjartari en heildarbirta hýsilvetrarbrautanna. Þau eru knúin áfram af risasvartholum í miðjunni sem sjúga til sín efni sem hitnar í kjölfarið þegar það fellur í átt að svartholinu. Ljósferlar vetrarbrauta í bakgrunni leggja lykkju á leið sína til okkar vegna gífurlegs massa í miðju vetrarbrautanna fyrir framan. Þessi þyngdarlinsuhrif er erfitt að mæla og krefjast nákvæmra athugana í hárri upplausn, nokkuð sem Hubble er velí stakk búinn fyrir.

Til að finna þessi sjaldséðu pör vetrarbrauta og dulstirna sem hegða sér sem þyndarlinsur, valdi hópur stjörnufræðinga undir forystu Frederic Courbin við Ecole Polytechnique Federale de Lausanne (EPFL) háskólanum í Svíss, litróf 23.000 dulstirna í Sloan Digital Sky Survey (SDSS) gagnagrunninum. Hópur hans leitaði að fingraförum fjarlægra vetrarbrauta sem fyrir tilviljun falla í beina línu við vetrarbrautir í forgrunni. Þegar heppilegar vetrarbrautir voru fundnar var skörp sjón Hubbles notuð til að skima eftir bogunum og hringunum sem einkenna þyngdarlinsur.

Á myndum Hubbles eru dulstirnin björtu blettirnir í miðju vetrarbrautanna en linsumyndir af fjarlægari vetrarbrautunum sjást sem dauf bogadregin form sem umlykja þær. Frá vinstri til hægri eru vetrarbrautirnar: SDSS J0919+2720 með tvær bláleitar linsumyndir fyrir ofan og neðan miðju vetrarbrautarinnar; SDSS J005+4016 með einn gulleitan boga hægra megin við miðju vetrarbrautarinnar og SDSS J0827+5224 sem hefur tvær linsumyndir, aðra fyrir ofan hægra megin en hina undir vinstra megin við miðju vetrarbrautarinnar.

Oft á tíðum er mjög erfitt og stundum jafnvel ómögulegt að koma auga á hýsilvetrarbrautir dulstirna vegna þeirrar gífurlegu birtu sem dulstirnið í miðjunni gefur frá sér. Þess vegna er erfitt að meta massa hýsilvetrarbrautarinnar út frá heildarbirtu stjarnanna í henni. Hins vegar er hægt að meta massa þeirra vetrarbrauta sem líka eru þyngdarlinsur út frá því hve mikið þær bjaga ljósið.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: SDSS J0919+2720, J1005+4016 og J0827+5224
  • Tegund: Dulstirni

Myndir

Tengt efni

Ummæli